Upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 17:24:37 (2809)

1997-01-28 17:24:37# 121. lþ. 56.6 fundur 192. mál: #A upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:24]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi. Flutningsmenn ásamt mér að þessari tillögu eru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir og Jón Kristjánsson.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að sjá til þess, í samvinnu við samráðsnefnd framhaldsskóla á Austurlandi, Samtök sveitarstjórna í Austurlandskjördæmi og Atvinnuþróunarfélag Austurlands, að hið fyrsta verði komið á fót upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi.

Verkefni miðstöðvarinnar verði fyrstu árin að auðvelda og þróa tengsl nemenda framhaldsskóla, almennings og atvinnulífs á Austurlandi við skóla og nám á háskólastigi og stuðla að fræðslu og námi á þessu skólastigi heima fyrir, m.a. með námskeiðum og fjarkennslu.``

Þetta er efni tillögunnar. Við flutningsmenn teljum ekki raunhæft að stíga stærra skref í bráð heldur en hér er lagt til. Ýmsir hefðu e.t.v. kosið að hér lægju fyrir hugmyndir að sjálfstæðum háskóla á Austurlandi. Það töldum við skref sem ekki væri raunsætt að leggja til við hv. Alþingi. Miklu vænlegra þótti okkur að stíga það spor sem hér er verið að leggja til, þ.e. að tengja Austurlandsfjórðunginn markvisst við háskólastigið og að fundinn verði samnefnari fyrir þá starfsemi til að gera hana markvissari sem væri sú upplýsinga- og fræðslumiðstöð sem hér er lagt til að verði sett á fót.

Ég vil taka fram að ég er þeirrar skoðunar að ekki þurfi í fyrstu a.m.k. að vera um að ræða mjög kostnaðarsama starfsemi eða fjölmenna miðstöð. Ég held að hægt sé að ná árangri með tiltölulega fáum starfsmönnum sem kæmu að þessu og ná árangri. Það er gert ráð fyrir að verkefnasvið þessarar miðstöðvar verði fyrst í stað einkum tvíþætt eins og kemur raunar fram í nafngiftinni, upplýsinga- og fræðslumiðstöð, þ.e. að þróa víðtæk tengsl við skóla og nám á háskólastigi annars staðar á landinu og miðla þeim tengslum til nemenda framhaldsskóla, almennings og atvinnulífs á svæðinu. Og í öðru lagi að stuðla að fræðslu og námi á þessu skólastigi á Austurlandi, m.a. í formi námskeiða og fjarkennslu.

Það er ljóst, virðulegur forseti, að endurmenntun, símenntun og fjarkennsla í samstarfi við háskóla sem fyrir eru gætu orðið meðal helstu verkefna miðstöðvarinnar og tengst skólum, fyrirtækjum og starfsgreinafélögum innan fjórðungsins. Hugsun okkar flm. er sú að aðilar atvinnulífsins sem standa m.a. að Atvinnuþróunarfélagi Austurlands og sjóði honum tengdum komi að þessu máli og hafi aðgengi að þessu því fátt er brýnna en að koma þekkingu sem greiðast inn í atvinnustarfsemina og til þeirra sem að henni koma.

Það er ef til vill fljótlega hægt að byggja upp stuttar háskólabrautir í tengslum við framhaldsskóla eða sem viðbót við framhaldsskóla sem eru starfandi á Austurlandi. En ég legg þó áherslu á að við verðum að horfa til háskólastigsins sem sjálfstæðs skólastigs. En jafnsjálfsögð og nauðsynleg eru tengslin við framhaldsskóla og upplýsingar náttúrlega til þeirra sem þar eru að ljúka námi og horfa til frekara náms.

Horfur eru á að framhaldsskólanám til stúdentspróf styttist innan tíðar úr fjórum árum í þrjú ár og það mætti hugsa sér að í stað fjórða árs framhaldsskóla kæmi nám á háskólastigi, samanber t.d. tölvuháskóla sem starfræktur er innan Verslunarskóla Íslands sem eins og kunnugt er er skóli á háskólastigi.

Við leggjum áherslu á að þetta mál er nátengt hugmyndum okkar um að efla stöðu þessa svæðis, Austurlands. Þannig er það nátengt þeirri byggðaþróun sem nauðsynlegt er að leggja grunn að með nýjum hætti eða að minnsta kosti að stíga skrerf til viðbótar þeirri viðleitni sem uppi hefur verið. Þar er að okkar mati menntunin eitt það brýnasta sem þarf að hlúa að og verulegur hugur er í mörgum. Ég vænti og efast ekki um að hæstv. menntmrh. er þeirrar skoðunar að þar þurfi að taka vel á og reyna að tryggja möguleika fólks, þótt búsett sé utan höfuðborgarsvæðisins og næsta nágrennis þess, til þess að tengjast háskólastiginu.

[17:30]

Hin nýja tækni hefur gert þetta mögulegt í áður óþekktum mæli og jafnvel í dreifbýli geta menn með fjarnámi og tengslum við það kerfi sem stundum er kennt við alnetið og aðra möguleika sem gera það kleift að stunda nám heima fyrir að talsverðu leyti þó að kannski þurfi að koma til sókn í skóla sem hluta af námi. Þannig var t.d. sú hugsum sem bjó að baki stofnunar háskóla á Akureyri liður í því að styrkja háskólanám utan höfuðborgarsvæðisins og visst andsvar við því að starfsemi Háskóla Íslands hefur fyrst og fremst verið tengd svæðinu í Reykjavík og grennd. Ég tel að sú viðleitni sem hefur verið uppi varðandi Háskólann á Akureyri, sem ég hef frá upphafi stutt hér á þingi að fengi eðlilegt vaxtarrými, hafi þegar borið góðan ávöxt þó að þar megi margt frekar til koma. Og auðvitað er Háskólinn á Akureyri ekkert síður en Háskóli Íslands sem og aðrir skólar meira í formi sérskóla á háskólastigi sem starfandi eru og mig minnir að séu eitthvað nærri 14 talsins ef ég hef tekið rétt eftir.

Hugmyndirnar um tengsl við háskólastigið og við nám á því stigi á Austurlandi eru ekki alveg nýjar af nálinni. Það hefur verið viðleitni uppi í fjórðungnum til þess að efla slíkt nám í formi fjarnáms m.a. Rakið er í greinargerð að þegar árið 1984 komu fram hugmyndir sem samþykktar voru um tengsl við Kennaraháskóla Íslands og þær báru ávöxt. Þar komu m.a. að máli Berit Johnsen, sem var sérkennslufulltrúi við fræðsluskrifstofu Austurlands, og þáv. fræðslustjóri á Austurlandi, Guðmundur Magnússon. Þau hlúðu að þessu og það bar þann ávöxt að um skeið fór fram framhaldsmenntun fyrir kennara á svæðinu og má segja að þessi viðleitni hafi orðið til að renna stoðum undir það sem síðar varð fjarskóli Kennaraháskóla Íslands.

Einnig hefur verið starfræktur farskóli á Austurlandi sem hefur einkum tengst stjórnunarlega séð Verkmenntaskóla Austurlands sem hefur aðalaðsetur í Neskaupstað. Sú stofnun gæti sem best og ætti að tengjast þessu með svipuðum hætti og framhaldsskólarnir og sjálfsagt að líta til þess sem þar hefur vel tekist og hægt er að bæta við og gæti orðið til þess að styrkja þá viðleitni sem hér er gert ráð fyrir.

Þá er þess að geta, það er nauðsynlegt að það komi hér fram, virðulegur forseti, að aðalfundur Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sem haldinn var í lok ágúst á síðasta ári fól stjórn sambandsins að undirbúa í samvinnu við stjórnvöld og forsvarsmenn skóla á háskólastigi að koma á fót háskólamenntun á Austurlandi, eins og það er orðað í tillögunni, í tengslum við austfirskt atvinnulíf og til að efla menntun og þekkingu í fjórðungnum. Það má segja að þessi ályktun, þessi vilji endurspeglist að nokkru leyti eða komi fram í þessari tillögu og hafi verið hvatning fyrir okkur flutningsmenn að færa málið inn á Alþingi. Ég tel mjög nauðsynlegt að menntmrn. komi að þessu máli frá upphafi, mótun þessara tengsla sem hér er gert ráð fyrir. Háskólastigið er á ábyrgð hæstv. menntmrh. og hans ráðuneytis og þar veit ég að er litið til með þessum málum almennt varðandi landið. Ég vænti góðs atbeina hæstv. ráðherra og hans starfsmanna við þetta mál þannig að mótun þess, ef tillagan nær samþykki á Alþingi, geti orðið til að það falli að öðrum hugmyndum sem uppi er um þróun og eflingu þessa skólastigs.

Eins og tillagan gerir ráð fyrir er reiknað með því að heimaaðilar komi frá upphafi inn í þessa stefnumörkun. Það leggjum við áherslu á. Þannig held ég að þetta mundi þegar geta farið að skila árangri á meðan að stefnumótun er unnið og það má í rauninni ekki dragast mjög lengi að þarna verði um verulega þróun að ræða og aðgerðir. Ég vænti þess að hv. Alþingi sjái sér fært að taka undir þessa tillögu. Það reynir auðvitað á það í þingnefnd en ég geri tillögu um að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til hv. menntmn.