Túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 13:31:00 (2813)

1997-01-29 13:31:00# 121. lþ. 57.1 fundur 194. mál: #A túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:31]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til félmrh. um túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda.

Það hefur skort skilning á því í okkar þjóðfélagi að táknmálið er í raun rödd heyrnarlausra og daufdumbra. Það er tungumálið þeirra og það sem meira er, táknmálið er aðgengi þessara einstaklinga að samfélaginu. Hins vegar hefur þeim verið gert mjög erfitt fyrir með að nýta tungumálið sitt við þátttöku í okkar þjóðlífi. Það má leiða líkum að því að tregðulögmálið varðandi réttmæta þjónustu við þennan þjóðfélagshóp, og þá er ég, virðulegi forseti, að vísa til túlkaþjónustu, liggi í því að við höfum ekki viðurkennt táknmálið sem tungumál heyrnarlausra og daufdumbra. Það er alveg ljóst að meðan það er ekki gert og þjónusta er ekki bætt við heyrnarlausa og daufdumba nýtur þessi hópur ekki sömu mannréttinda og við.

Það var stór áfangi í átt til aukinnar þjónustu og réttinda þegar kennsla hófst í táknmálsfræðum við Háskóla Íslands. Í vor munu fyrstu túlkarnir, að ég held níu talsins --- herra forseti, ég er ekki alveg viss um þá tölu en ég held að þeir séu um níu --- útskrifast og þá er mjög mikilvægt að það séu tilbúin framtíðarúrræði svo við missum ekki þetta fólk til annarra starfa sem notað hefur nokkur ár til þessarar þýðingarmiklu sérmenntunar. Það er mikilvægt að það liggi fyrir hvernig eigi að fjármagna túlkaþjónustu til framtíðar litið og hver réttur þeirra sem búa við þessa fötlun er til mikilvægustu stoðþjónustunnar, nefnilega túlkunar á táknmáli.

Það þekkist að heyrnarlausir og daufdumbir fái túlkaþjónustu, svo sem á sjúkrahúsum og innan dómskerfisins. Réttur þeirra hefur jafnframt verið tryggður varðandi skólagöngu og ég minni þar á lagaákvæði í framhaldsskólalögunum sem sett voru á Alþingi sl. vor. En þetta eru samt mjög takmörkuð réttindi. Ég tel að eðlilegt sé að ríkið kosti túlkaþjónustu fyrir þennan þjóðfélagshóp þó ég geri mér grein fyrir að sveitarfélögin geti ef til vill komið að því máli, a.m.k. í ákveðnum tilvikum. Sum sveitarfélög hafa greitt eða veitt framlag til túlkaþjónustu þó það sé í mjög smáum stíl.

Virðulegi forseti. Í ársbyrjun 1995 voru veittar 2 millj. kr. til almennrar túlkunar vegna samskipta við opinbera aðila og vegna sérstakra hagsmuna heyrnarlausra og daufdumbra. Upphæðin var ekki mjög há en í raun mjög til þess fallin að ýta úr vör þýðingarmikilli túlkaþjónustu fyrir þennan hóp. Þá var á sama tíma skipuð nefnd til að kveða á um framtíðarskipan þessara mála. Mér er kunnugt um það að núv. félmrh. tryggði áfram framlag til túlkaþjónustu sl. ár og ég met það mjög mikils við hæstv. félmrh. þar sem ekki er búið að skipa þessum málum, en ég veit jafnframt að fyrir jól upplýsti hann að slíkur styrkur yrði ekki áfram veittur með óbreyttum hætti.

Auk spurninganna sem ég hef borið fram við félmrh. væri ef til vill eðlilegt að spyrja hvernig þessi mál snúa að málaflokki fatlaðra og endurskoðun á lögunum um málefni fatlaðra. Ég get komið inn á það í síðari ræðu minni af hverju þessi réttur var ekki tryggður í lögunum um málefni fatlaðra fyrir fimm árum. En nú hefur Alþingi tekið ákvörðun um það í lagasetningu fyrir jól að málaflokkur fatlaðra verði fluttur til sveitarfélaganna og þá er mjög mikilvægt að átta sig á því hvernig við tryggjum hag þessa hóps, heyrnarlausra og daufdumbra, við þann flutning. En spurningarnar voru hverjar helstu niðurstöður nefndarinnar væru varðandi framtíðarskipan túlkaþjónustu og til hvaða aðgerða ráðherra muni grípa til að tryggja þessum hópi nauðsynlega túlkaþjónustu svo að hann fái notið almennrar lögbundinnar þjónustu og aðgengis að samfélaginu.