Túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 13:42:01 (2816)

1997-01-29 13:42:01# 121. lþ. 57.1 fundur 194. mál: #A túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vakti máls á því í inngangsorðum mínum að vandi heyrnarlausra og klúðrið, ef maður notar það orð, við að veita þessa þjónustu byggist á því að við höfum ekki viðurkennt táknmálið. Ég tek því undir það að við eigum að lögfesta táknmálið sem mál heyrnarlausra. Þetta hefur verið gert í sumum nágrannalöndum okkar og rekin er túlkaþjónusta a.m.k. bæði í Danmörku og Svíþjóð. Réttur heyrnarlausra er festur sem réttur annarra minnihlutahópa í stjórnarskrá Finnlands, ef ég man rétt.

Eftir svörum hæstv. félmrh. að dæma er staðan í raun og veru nákvæmlega sú sama í dag og fyrir tveimur árum þegar ég kom í félmrn. og reyndi að hreyfa við þessu brýna máli að öðru leyti en því að frá því í apríl hafa legið fyrir tillögur nefndar sem fjallaði um hvernig mætti skipa þessum málum til framtíðar. Ég er mjög ósátt við það ef félmrh. veitir engar upplýsingar um hvernig hann ætlar að halda á þessum málum þar sem upplýst hefur verið að túlkaþjónustan verður ekki kostuð með sama hætti og áður sem var millibilsástand sem bráðabirgðalausn meðan reynt var að finna leið til framtíðar.

Ég þekki það mjög vel að þessum málum var í raun ýtt út úr endurskoðun laganna um málefni fatlaðra fyrir fimm árum vegna þess að Samskiptamiðstöðin var ný og þessi mál áttu að heyra þar undir, en hins vegar hefur það verið takmarkað hvernig Samskiptamiðstöðin hefur getað tryggt heyrnarlausum þann rétt sem brýnt er. Það er ekki nógu gott að félmrn. geti ýtt þessum vanda yfir á menntmrn. af því að þar er Samskiptamiðstöðin vistuð og síðan geti Samskiptamiðstöðin eða þeir sem með hana véla bent á að ekki séu meiri kröfur en lögin þar segja til um. Þessi mál eru í óefni, virðulegi forseti, og ég óska eftir því að hæstv. félmrh. upplýsi þingið betur um hvað hann hyggst gera í þessum málum.