Túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 13:46:12 (2818)

1997-01-29 13:46:12# 121. lþ. 57.1 fundur 194. mál: #A túlkaþjónusta fyrir heyrnarlausa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:46]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég er mjög ánægð með að hæstv. félmrh. ætlar að reyna að finna framtíðarlausn en það skiptir mjög miklu máli að þeirri úrlausn sem hefur fengist með þessu takmarkaða fjármagni verði haldið áfram. Því spyr ég ráðherrann: Mun hann veita fjármagn til áframhaldandi túlkaþjónustu meðan hann finnur framtíðarlausnina? Ég tek undir að það hefði ef til vill átt að skoða hvar Samskiptamiðstöðin var vistuð miðað við hvernig þróun mála hefur orðið. En við skulum ekki gleyma því að þar hefur verið unnið mikilvægt og feikilega þarft starf. Við skulum ekki á nokkurn hátt gera lítið úr þeirri þjónustu því hún er eitt það mikilvægasta sem gerst hefur í málaflokki heyrnarlausra. En þetta var vilji Alþingis á þeim tíma og var orðin staðreynd áður en endurskoðun laganna fyrir fimm árum fór fram og hafði kannski áhrif á þróunina í framhaldi. En Samskiptamiðstöðin er gott mál og ég bið ráðherrana að skoða þetta sín á milli.