Framhaldsnám fatlaðra

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 13:48:34 (2820)

1997-01-29 13:48:34# 121. lþ. 57.2 fundur 221. mál: #A framhaldsnám fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[13:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ber fram þessa fsp. til hæstv. menntmrh. sem er sett fram af Ástu B. Þorsteinsdóttur. Ég mæli fyrir fsp. í hennar stað. Hún er í átta liðum svo ég mun ekki lesa hana upp en fyrst og fremst gera grein fyrir hvers vegna þessar spurningar eru settar fram.

Ég vil taka fram að eitt af því mikilvægasta fyrir ungt fólk til undirbúnings fullorðinsáranna og til að takast á við líf og störf í lýðræðisríki er að afla sér staðgóðrar menntunar. Íslenskt menntakerfi hefur verið nokkuð mikið til umræðu á undanförnum missirum og þá fyrst og fremst vegna samanburðar á námsárangri. Það hefur enn fremur verið nokkurt áhyggjuefni hversu hátt brottfall nemenda í íslenskum framhaldsskólum er á fyrsta ári framhaldsskólans. Svo virðist sem allt að helmingur þeirra sem innritast í framhaldsskóla landsins falli frá námi strax á fyrsta ári. Þörf fyrir sérkennslu og sérstakan stuðning við nemendur í framhaldsskólum landsins, sem eiga við námserfiðleika eða félagslegan vanda að etja, hefur farið vaxandi. Það er sérstakt mál sem brýn þörf er á að gefa sérstakan gaum.

Með þessari fsp. er gerð tilraun til að fá upplýsingar um hvernig þeir nemendur, sem eru skilgreindir sem fatlaðir í samræmi við lög um málefni fatlaðra, standa að vígi innan framhaldsskóla landsins. Með tilliti til uppsetningar fsp. hefði e.t.v. verið hentugra að fá skriflegt svar þar sem fsp. kallar á tölulegar upplýsingar en það er jafnframt þýðingarmikið að ræða málefni fatlaðra nemenda eins og hér er gert.

Ótvríræður réttur fatlaðra til að stunda nám á framhaldsskólastigi var lögfestur árið 1986 með lögum um framhaldsskóla. Fram að því höfðu fatlaðir ekki nema með einstökum undantekningum átt þess kost að stunda nám í framhaldsskólum landsins og þar með njóta sambærilegrar menntunar á við ófatlaða jafnaldra sína.

Á þessu tíu ára tímabili sem liðið er frá setningu laganna hafa ýmsar mjög merkar tilraunir verið gerðar í nokkrum framhaldsskólum til að bjóða fötluðum nám og ber það vott um framsækni og metnað sem vert er að gefa gaum. Nægir þar að benda á starfsnám fyrir þroskahefta sem Iðnskólinn í Reykjavík hefur haft í boði og merkt starf Menntaskólans við Hamrahlíð sem hefur verið frumkvöðull í menntunarmálum fatlaðra á Íslandi og þó víðar væri leitað enda nýlega veitt silfurverðlaun Helios-áætlunar Evrópusambandsins. En um leið verður ekki hjá því komist að staldra við og spyrja hvort nám á framhaldsskólastigi standi fötluðum nemendum almennt til boða þegar þeir ljúka grunnskólanámi eða hvort það sé ef til vill almenna reglan að þeim bjóðist lítið sem ekkert nám eftir að 16 ára aldri er náð á meðan ófatlaðir jafnaldrar þeirra eiga eftir allt að áratug þar til námi þeirra lýkur. Ef svo er eru þessir tveir hópar ungmenna mjög misvel undir líf og störf fullorðinsáranna búnir.

Í því samhengi er rétt að hafa í huga að möguleikar fatlaðra til menntunar og starfa eru aðeins að hluta háðir fötluninni. Lífsgæði þeirra eru ekki síður undir þeim viðhorfum og vilja samfélagsins komin og þeim vaxtarskilyrðum sem það býr þeim. Því er rétt nú rúmum áratug eftir að réttur þeirra til framhaldsskólanáms var lögfestur að staldra við og spyrja hver staðan er og hvort fatlaðir nemendur sitji í reynd við sama borð og ófatlaðir jafnaldrar þeirra hvað varðar framhaldsnám og fullorðinsfræðslu.

Spurningarnar sem bornar eru fram í fsp. eru í átta liðum og eru mjög víðtækar. Mig langar að nefna nokkrar staðreyndir sem eru grunnurinn að þeim. Um það bil 2% af nemendum í hverjum árgangi eru með einhvers konar greindarfötlun. Samkvæmt rannsóknum má áætla fjölda þeirra sem greindir eru fatlaðir í hverjum árgangi á eftirfarandi hátt: 2--3 heyrnarlausir, 10--15 fjölfatlaðir, 1--2 blindir, 5--6 mjög hreyfihamlaðir og 2--3 einhverfir, 15--20 greindarskertir eða samtals allt að 30 í hverjum árgangi. Það verður að hafa í huga að stórir hópar í árgöngum undanfarinna ára hafa að mjög litlu leyti átt kost á framhaldsskólanámi. Nefnd á vegum menntmrn. hefur unnið að tillögum um úrbætur fyrir fatlaða í framhaldsskólum og tillögum var skilað vorið 1995 og þá lagt til að þrír skólar yrðu skilgreindir sem kennslu- og ráðgjafarmiðstöðvar sem mundu rúmast inni í hugmyndum um kjarnaskóla. Menntaskólinn við Hamrahlíð, Iðnskólinn í Reykjavík og að öllum líkindum Borgarholtsskóli. Þeir eiga að vera ráðgefandi fyrir aðra skóla að sinna kennslu fatlaðra. Þá lagði nefndin enn fremur til að framhaldsskólanám fatlaðra skyldi aldrei vera styttra en nám annarra nemenda og hafa skilgreint upphaf og endi. Ég spyr hvað líður þessu máli og hvað líður því að Borgarholtsskóli fái þetta hlutverk?