Öryggi barna

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:30:12 (2834)

1997-01-29 14:30:12# 121. lþ. 57.5 fundur 252. mál: #A öryggi barna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:30]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að þessi fyrirspurn er fram borin og eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda eru allt of tíð slys á börnum hjá okkur miðað við það sem gerist a.m.k. í sumum nágrannalöndum og löndum sem hann m.a. bar saman við það ástand sem hér hefur skapast. Það var allmikil umræða um þetta mál seint á síðasta ári, m.a. í tilefni af því nefndarstarfi sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, en starfshópur sem skipaður var af þáv. hæstv. umhvrh. á árinu 1994 fjallaði um þessi mál og skilaði áliti í lok árs 1995. Margar af tillögum nefndarinnar þarfnast lagastoðar og hefur þeim sem við eiga verið komið í frv. til skipulags- og byggingarlaga sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, sérstaklega í tengslum við eftirlit byggingarfulltrúanna. Aðrar eru til meðferðar í tengslum við reglugerð sem setja á um öryggi sund- og baðstaða og eru í vinnslu. Enn aðrar tengjast heildarendurskoðun byggingarreglugerðarinnar sem nú stendur yfir í ráðuneytinu. Ætlunin er er að gefa út nýja og endurskoðaða byggingarreglugerð strax og ný skipulags- og byggingarlög hafa verið samþykkt og með sömu gildistöku.

Nú má auðvitað spyrja hvort réttlætanlegt sé að bíða eftir þeirri heildarreglugerð ef málin eru brýn og alvarleg og hvort ekki þyrfti að koma breytingum fram. Auðvitað má skoða það. En þó standa vonir til að þetta frv. verði lögfest á þessu þingi. Ég geri mér alla vega enn vonir um að það takist. Það hefur reyndar verið von umhvrh. á þingum áður og það veit ég að hv. fyrirspyrjandi þekkir.

Að undanförnu hafa slys á börnum verið töluvert í fréttum og ekki síst slys sem tengjast boltamörkum, eins og hv. fyrirspyrjandi greindi sérstaklega frá, frágangi á byggingarstöðum og heitum pottum eða sundstöðum. Hefur verið látið að því liggja að reglur hér að lútandi séu ófullkomnar og með betri reglum hefði jafnvel verið hægt að koma í veg fyrir þessi slys. Í tilefni þessarar umræðu get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli á að enginn skortur er á reglum um umrædd atriði. Sem dæmi vil ég nefna að í heilbrigðisreglugerð er ákvæði sem eiga að fyrirbyggja slys eins og í baðlaugum og í leikfimissölum. Eftirlit er síðan í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins. Hollustuvernd ríkisins hefur ítrekað sent heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna upplýsingar um hvernig eigi að standa að málum, m.a. með því að senda öryggisreglur svo sem um notkun setkera, sem og um öryggi við boltamörk og setlaugar. Heilbrigðiseftirlitið reynir að hafa eftirlit með þessu eftir því sem kostur er. Sérstakar reglur hafa verið settar um frágang vinnusvæða á vegum félmrn. og fer Vinnueftirlit ríkisins með framkvæmd þess eftirlits.

Reglur munu aldrei einar sér geta ekki komið í veg fyrir að slys á börnum eigi sér stað. Niðurstaðan er því sú að ekki sé skortur á reglum heldur sé frekar um að ræða sinnuleysi þeirra sem bera ábyrgð á hlutaðeigandi starfsemi og e.t.v. er ekki nægilega markvisst eftirlit með framkvæmd reglnanna þó augljóst sé að reglubundið eftirlit eitt og sér nægi ekki heldur í þessum tilvikum ef ábyrgðaraðilarnir sjálfir hirða ekki um framkvæmd reglnanna.

Með þessu er ég ekki að segja að ekki megi betur gera af hálfu stjórnvalda. Við stöndum frammi fyrir vandamáli í tengslum við framkvæmd eftirlitsins sem fólgið er í því að margar stofnanir og aðilar eru að fást við þessi mál með einum eða öðrum hætti, ýmist á vegum sveitarfélaganna eða ríkisins. Má þarf nefna stofnanir eins og Hollustuvernd ríkisins, Vinnueftirlit ríkisins, Brunamálastofnun ríkisins, Skipulag ríkisins og síðan á vegum sveitarfélaganna, heilbrigðiseftirlit og byggingareftirlit.

Þegar eftirlit er jafnfjölskrúðugt og raun ber vitni er viðbúið að valdmörk séu ekki nægjanlega skýr og á því máli verður að taka. Það er þá hlutverk stjórnvalda. Ég hef því í samvinnu við hlutaðeigandi aðila kallað til fundar með Hollustuverndinni, Vinnueftirlitinu, Skipulagi ríkisins, landlækni, umboðsmanni barna og Slysavarnafélagi Íslands til þess að ræða þessi mál og er sá fundur ráðgerður í byrjun næsta mánaðar. Þar er ætlunin að ræða framkvæmd eftirlitsins, valdmörk einstakra eftirlitsaðila, hvernig hægt sé að ná eyrum ábyrgðaraðila með framkvæmdum og rekstri og hvað sé til úrbóta. Vænti ég þess að í framhaldi af þessum fundi verði hægt að taka á þeim atriðum sem ég tel miklu skipta, sem eru skýr valdmörk eftirlitsaðilanna og visst eftirlit með því að settum reglum sé framfylgt.