Öryggi barna

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 14:34:56 (2835)

1997-01-29 14:34:56# 121. lþ. 57.5 fundur 252. mál: #A öryggi barna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir skýr svör. Ég tel ljóst af hans máli að hann sé búinn að hugsa það út í gegn hvernig hann ætlar að hrinda þessum breytingum í framkvæmd. Hann bendir hins vegar á að það kann að vera að mögulega þyrfti að hraða vinnu við einstakar úrbætur. Ég nefni til að mynda sérstaklega fótboltamörkin sem hafa valdið mjög alvarlegum áverkum furðumargra barna á síðustu árum. Er ekki möguleiki að menn velti því fyrir sér í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum á síðustu árum að gera einhverjar sérstakar mjög brýnar breytingar á reglugerðum sem hægt er að gera án þess að breyta lögum endilega? Er ekki þörf á að hugsa það til hlítar, herra forseti?

Hæstv. umhvrh. bendir á að það hafi verið ætlunin að bíða eftir því að ný lög um skipulag og byggingar taki gildi og að í framhaldi af því verði gefin út endurskoðuð byggingarreglugerð. Ég hef auðvitað --- ég segi ekki beiska reynslu, en ég hef nokkra reynslu af því að það tekur ansi langan tíma að koma í gegnum þingið jafnviðamikilli löggjöf og þar er um að ræða. Ég veit ekki hvernig sú vinna er stödd núna, en ég tel að hæstv. umhvrh. þurfi nokkra lukku yfir sér til þess að sjá það mál fara í gegnum þingið í vetur. Þess vegna beini ég því a.m.k. til umhugsunar hjá honum að hann velti fyrir sér hvort ekki sé rétt að gera einhverjar breytingar sem skjóta byttu undir a.m.k. alvarlegasta lekann.

Ég hjó líka eftir því að hæstv. umhvrh. ætlar að halda fund með öllum þeim fjölmörgu stofnunum sem koma að þessu máli og kannski er það vandinn að svo margir þurfa að koma að málinu. Ég velti því fyrir mér, getur ekki verið rétt að koma upp einhverri stöðu eins og hæstv. dómsmrh. hefur t.d. gert hjá Umferðarráði þar sem sérstakur öryggisfulltrúi fjallar um málefni barna? Er ekki rétt að koma upp einhvers konar öryggisfulltrúa eða jafnvel öryggismiðstöð barna eins og er nú farið að ryðja sér til rúms víða í nágrannalöndum?