Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:21:58 (2841)

1997-01-29 15:21:58# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:21]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vonast til að hv. þm. muni síðar í umræðunni svara ítarlegar fyrirspurn minni því að vissulega er greining þingmannsins á vandamálinu hárrétt að mínu viti. Að búa við fiskveiðistjórnarkerfi eins og við búum við í dag þar sem útgerðarmönnum er falinn ákvörðunarrétturinn og umráðarétturinn getur haft í för með sér gagnstæða hagsmuni hans og íbúanna í byggðarlögunum. Spurningin er hins vegar: Hver eru úrræði Kvennalistans við þessu vandamáli sem hv. þm. vakti athygli á í ræðu sinni áðan? Eru úrræðin þau að taka forræðið af útgerðarmanninum? Er úrræðið að leggja á veiðileyfagjald? Hvernig má það vera að það breyti þessu vandamáli? Eða hefur Kvennalistinn eitthvert annað úrræði sem hann á eftir að gera grein fyrir í umræðunni? Ég vænti þess að þingmaðurinn lýsi skoðunum síns þingflokks á lausnum á vandamálinu því það er kjarni málsins hvernig menn ætla að leysa þetta vandamál sem hér hefur verið dregið fram í dagsljósið.