Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:34:53 (2844)

1997-01-29 15:34:53# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:34]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé nokkurn veginn öruggt að ég geti staðfest að Stalín sé dauður, en það þýðir hins vegar ekki að sósíalisminn sé dauður. Og ef það hefur verið svona bjart yfir mér þegar ég sagði þessi orð, að uppgötva að hv. þm. Ragnar Arnalds er sá sami þingmaður og ég hef þekkt í gegnum árin og áratugina, þá verður bara að hafa það. Ég sé ekkert rangt við það þó að ég gleðjist yfir því að Ragnar Arnalds á sínum seinustu árum hér á þingi sé ekki að beygja sig fyrir einhverjum tískusveiflum innan Alþb. heldur stendur bara við sitt og sína stefnu.

En ég áttaði mig ekki alveg á því sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði um túndruna. Auðvitað getur túndran verið jafnverðmæt og hinn frjósami jarðvegur. Það er alveg rétt. En það getur verið af einhverjum huglægum þáttum, einhverjum þáttum sem við hér og nú getum alls ekki skýrt eða skilgreint. En það sem ég er að segja er að þá er það bara allt í lagi að hún sé verðmætari heldur en eitthvert annað land og það er bara ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að menn fái þá fullar bætur fyrir þær eignir sem þeir eiga og eru af þeim teknar en ekki að það sé bara eitthvert staðlað verð eða staðlað verðmat á fermetrann, algerlega óháð þeim ytri aðstæðum sem kunna að vera ríkjandi.