Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:41:26 (2849)

1997-01-29 15:41:26# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:41]

Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað verður hv. 2. þm. Reykn. að gera sér grein fyrir því að eignarréttindi eru alltaf takmörkuð með ýmsum hætti og það er enginn stórkostlegur heimskommúnismi að menn geri tillögu um að takmarka eignarréttindi. Það hefur Sjálfstfl. að sjálfsögðu gert margsinnis og auðvitað eru ýmiss konar takmörk í okkar löggjöf gagnvart eignarréttindum. Það þarf hins vegar að skilgreina eignarrétt á Íslandi skýrar en gert er í dag og frv. okkar er fyrst og fremst innlegg til þeirrar umræðu.

Ég minnist þess að ekki er langt síðan framkvæmdastjóri Landssambands ísl. útvegsmanna kallaði ritstjóra Morgunblaðsins ,,síðasta sósíalistann`` vegna þess að hann leyfði sér að ítreka þá skoðun sína að tryggja þyrfti sameign þjóðarinnar á auðæfum sjávar. Auðvitað eru til þeir menn í Sjálfstfl. sem líta á það sem sósíalisma að muna eftir sameign þjóðarinnar. Ég er sósíalisti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Ég er sósíalisti og ég held að jafnaðarmenn um allan heim skammist sín ekkert fyrir það að nefna sjálfa sig sósíalista. Alþb. er sósíalískur flokkur, það kemur fram í 1. gr. laga þess og við erum stolt af þeirri skilgreiningu og stöndum við hana. (Gripið fram í: Kom fram ræðu formannsins.) En við gerum okkur hins vegar vonir um það að fleiri en við höfum skilning á sósíalískum sjónarmiðum, á þörfinni á því að gæta jafnræðis í þjóðfélagi okkar og láta ekki alltaf séreignarstefnuna ganga yfir og kúga allan fjöldann og veita einstökum mönnum það sem þeir eiga ekki. Það er sósíalískt sjónarmið og við skulum vona báðir tveir að þeir fái áfram að lifa í okkar þjóðfélagi.