Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 29. janúar 1997, kl. 15:57:26 (2855)

1997-01-29 15:57:26# 121. lþ. 58.6 fundur 70. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., Flm. RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:57]

Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. 15. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni, að það getur verið erfitt að slá því föstu þegar um er að ræða jarðhita og verið er að ákveða hvað skuli teljast sameign þjóðarinnar hvort miða skuli við 100 metra dýpi eða 150 metra dýpi. Þetta kom fram áðan. Ég nefndi þar margar tölur sem vel gætu komið til greina og er auðvitað ekki fastur í þeim efnum á ákveðinni tölu.

Hv. þm. vildi hins vegar skilgreina þetta á annan veg. Hann vildi miða við 200° hita, þ.e. að hitinn í holunni væri kominn yfir ákveðið mark. Ég segi þá við hann eins og hann sagði við mig: Af hverju endilega 200°? Af hverju segjum við ekki 250° eða 150°? Í slíkum tilvikum er alltaf erfitt að rökstyðja einhverjar hárnákvæmar tölur. Þarna verðum við að komast að einhverri niðurstöðu sem eðlileg og sanngjörn getur talist. En auðvitað er enginn einn sannleikur til í þessu efni.

Um orðalag eignarnámsgreinarinnar gegnir svipuðu máli. Ég efast ekki um að hana megi orða á margan annan veg. Hún er fyrst og fremst þarna fram sett til að slá því föstu að víkja megi frá almennu markaðsverði þegar svona stendur á eins og þarna er rætt um. Það er sem sagt ekki skylt að fylgja almennu markaðsverði og það er talið heimilt að hafa bæturnar lægri. Bæturnar mundu ýmist verða ákveðnar í samningum eða með dómi og það er heimilt að víkja frá markaðsverðinu. Þetta er gert í ýmsum löndum. Ég tel að þetta eigi að gera hér líka. Ég tel t.d. að í Noregi sé heimild til þess í eignarnámslögum að víkja frá markaðsverðinu. Hvernig þetta er orðað er svo aftur annað mál.