Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 10:32:20 (2859)

1997-01-30 10:32:20# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[10:32]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samningsveð, sem lagt hefur verið fram á þskj. 350. Frv. þetta er nú lagt fram í fimmta sinn. Það var upphaflega lagt fram á vorþingi 1993 og síðan endurflutt á haustþingum 1993 og 1994 og enn á vorþingi 1996, en til þessa hefur ekki náðst að ljúka afgreiðslu þess á Alþingi.

Núgildandi veðlög eru að stofni til frá árinu 1887 og fela í sér ófullnægjandi ákvæði um samningsveð. Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu laganna hafa verið sett ýmis lög varðandi samningsveð, einkum í þágu lánastarfsemi ákveðinna atvinnugreina. Þróun réttarins á þessu sviði hefur verið mjög brotakennd og ómarkviss og ólíkar reglur gilt um veðsetningu eftir því hvaða atvinnugreinar hafa átt í hlut.

Við samningu frv. var höfð hliðsjón af endurskoðun sem Norðmenn og Danir hafa gert á réttarreglum um veðsetningar, en frv. er að öðru leyti sniðið að íslenskum aðstæðum.

Með frv. er stefnt að því að setja í fyrsta skipti heildarlöggjöf um samningsveð og að taka á helstu álitaefnum sem uppi eru í þeim efnum. Stefnt er að því að gera löggjöfina samræmda þannig að sambærilegar reglur gildi um veðsetningar hver sem í hlut á, að hagsmunir þeirra sem lána út á veðsetningar séu tryggðir og jafnræði ríki í þeim efnum. Jafnframt er gert ráð fyrir að rýmkaðar verði heimildir til veðsetningar og þjónar það í verulegum mæli hagsmunum atvinnuveganna í landinu.

Ónauðsynlegt er að fara í einstökum smáatriðum í efni frv. og helstu nýmæli þess. Um það vísast til fyrri framsögu með frv. og athugasemda. Ég vil hins vegar gera grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frv. frá því að það var síðast lagt fram.

Veigamesta breytingin er sú að nýrri málsgrein, 4. mgr., er bætt við 3. gr. frv., þar sem fjallað er um það þegar veðsett eru fjárverðmæti sem á eru skráð réttindi til nýtingar í atvinnurekstri og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, svo sem aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar. Af reglu 4. mgr. 3. gr. frv. leiðir að óheimilt er að veðsetja slík réttindi. Gert er ráð fyrir að þau geti ekki verið sjálfstætt andlag veðréttar. Hafi hins vegar slík fjárverðmæti sem á eru skráð réttindi, þ.e. veiðiskip eða lögbýli, verið veðsett, er gert ráð fyrir að eiganda þeirra sé óheimilt að skilja hin úthlutuðu réttindi frá viðkomandi fjárverðmæti nema fyrir liggi samþykki veðhafa. Gert er ráð fyrir að sú háttsemi varði refsingu sem skilasvik, sbr. 2. mgr. 48. gr. frv.

Allnokkur umræða hefur orðið um veðsetningu á aflahlutdeild skips. Samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, og reglugerð nr. 367/1991 er heimilt að framselja aflahlutdeild skips að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Aflahlutdeild getur því samkvæmt þessum heimildum gengið kaupum og sölum og unnt er að leigja hana, og getur hún sem slík haft í för með sér mikið verðmæti. Það getur því varðað þann miklu sem veðrétt á í skipi að aflahlutdeild verði ekki frá skipinu skilin enda sýna dæmin að markaðsverð skipa sem ekki hafa aflahlutdeild er annað en þeirra sem aflahlutdeild hafa. Má því til sanns vegar færa að óheft heimild eiganda skips til þess að skilja aflahlutdeild frá skipi, án alls samráðs við þá sem eiga veðrétt í skipinu, getur leitt til mjög verulegrar rýrnunar veðsins og skert þá tryggingu sem veðréttinum er ætlað að veita.

Hvorki fyrri gerðir frv. né þessi hafa miðað að því að breyta þeirri réttarstöðu sem mælt er fyrir um í lögum um stjórn fiskveiða. Veðlögin eru eðli máls samkvæmt hlutlaus gagnvart þeirri skipan mála sem þar er ákveðin. Þau hvorki styrkja hana né veikja. Markmiðið er það eitt að tryggja öryggi í viðskiptum.

Rétt er að leggja áherslu á það að með frv. er á engan hátt ætlað að hefta svigrúm ríkisvaldsins til að skerða eða afnema hin úthlutuðu nýtingarréttindi á gildistíma veðsetningar. Sá sem tekur veðrétt í veiðiskipi eða bújörð tekur, með sama hætti og eigandi skipsins eða bújarðarinnar, þá áhættu að ríkisvaldið kunni að grípa til slíkra ráðstafana.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja meira um frv. að þessu sinni svo mjög sem hv. þm. er kunnugt efni þess frá fyrri umræðum í Alþingi og umfjöllun um það í hv. allshn. Það er löngu tímabært að sett verði heildarlög um samningsveð. Það eru augljósir hagsmunir allra, jafnt þeirra sem eiga í atvinnurekstri og eru lántakendur og lánveitenda. Ég vænti þess að með frv. þessu hafi fundist niðurstaða um það atriði sem til þessa hefur helst valdið ágreiningi í þinginu og vænti þess því að Alþingi geti nú afgreitt frumvarpið á þessu þingi. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.