Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:09:00 (2867)

1997-01-30 11:09:00# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:09]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur skýrt fram í frv. að veiðiheimildir er ekki heimilt að veðsetja. Ég ætla ekki að fara frekar út í það, það getur hv. þm. lesið. Hann svaraði ekki því sem ég setti hér fram sem óbeina spurningu: Er einhver sem telur rétt að það eigi að vera heimilt að færa þessar heimildir frá skipi í tilfelli sjávarútvegsins eða bújörð í tilfelli landbúnaðarins án heimildar veðhafa? Eru það góðir viðskiptahættir? Ég held að svo sé ekki og þess vegna þurfi löggjafinn að taka á þessu ákvæði. Með því frv. sem nú hefur verið lagt fram og samstaða er um meðal stjórnarflokkanna er tekið á þessu. Ég vil lýsa ánægju með þau orð hv. þm. sem hann lét falla hér í upphafi ræðu sinnar að það hafi verið nauðsynlegt fyrir löggjafann að taka á samningsveðalöggjöfinni og setja heildarlöggjöf þar um. Það held ég að hafi verið. Vegna þeirrar réttaróvissu sem skapaðist með dómum á síðasta ári varð ekki hjá því komist að taka einnig á þessu hvað varðaði aflahlutdeild fiskiskipa og greiðslumark bújarða. Ég er mjög sátt við þá niðurstöðu sem fékkst og ég er eiginlega hreykin af henni. Ég tek nú svo mikið upp í mig.