Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:44:21 (2883)

1997-01-30 11:44:21# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:44]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talaði um að við í stjórnarandstöðunni skildum kannski ekki um hvað málið fjallar. Ég get fullvissað hv. þm. um að við skiljum það mætavel. Þetta frv. snýst um hvernig fénýtingu kvótaúthlutunar af hálfu útgerðarmanna er háttað. Þetta frv. snýst um það að útgerðarmenn geta fengið lánað út á kvóta og frv. snýst um það að tryggja hagsmuni lánveitenda. Þetta frv. fjallar ekki um neitt annað. Þetta frv. fjallar ekkert um framsal eða veiðistjórnun. Þetta frv. fjallar um það að tryggja hagsmuni lánveitenda þegar þeir lána út á kvóta vegna þess að kvóta er alltaf úthlutað á skip. Ég ráðlegg formanni þingflokks Framsfl. og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að lesa 5. og 7. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem segir m.a. að veiðiheimildum skuli úthlutað til einstakra skipa.

Það er ekkert til sem heitir úthlutun á kvóta til annarra aðila heldur en skipa. Hv. þm. gætu talað um að verið væri að banna framsal á kvóta ef það væri hægt að úthluta kvóta á eitthvað annað en skip. Það er ekki hægt. Málið liggur alveg ljóst fyrir. Hér er verið að tryggja réttindi lánveitenda við lán út á kvóta. Hér er verið að veðsetja kvóta. Hér er fénýting útgerðarmanna á ókeypis úthlutuðum veiðiheimildum til umræðu og hér er verið að tryggja réttindi lánastofnana. Um það snýst þetta mál og ekkert annað. Það þarf ekki að rugla þessa umræðu. Það er greinilegt að ríkisstjórnin og Framsfl. vilja ganga fram fyrir skjöldu og tryggja hag lánveitenda í þessu máli við veðsetningu á aflaheimildum sem eru sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta frv. grefur undan eignarréttarákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Það er algjörlega ótvírætt. Það grefur undan því ákvæði. Það breytir því ekki en það grefur undan því. Um þetta snýst málið.