Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:46:28 (2884)

1997-01-30 11:46:28# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:46]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er lengi hægt að berja höfðinu við steininn. Vondir eru útgerðarmenn en verri eru þó lánastofnanir miðað við ræðu hv. þm. Það er ekki rétt sem fram kemur hjá honum, og er búið að taka það alloft fram í þessari umræðu, að útgerðarmenn fái lán út á kvóta samkvæmt þessu frv. Hins vegar er ekki heimilt að flytja kvótann frá skipinu nema með heimild lánastofnana. Og vegna hvers skyldi það vera? Vegna þess að það skiptir máli að þetta skip fái að sækja sjóinn. Það er nú bara þannig miðað við það fiskveiðikerfi sem við búum við og þá löggjöf sem gildir í landinu. Það skiptir líka máli í sveitinni að bújörð hafi greiðslumark. Það skiptir mjög miklu máli. Þetta er það kerfi sem við höfum. Þetta grefur ekki undan 1. gr. heldur styrkir 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna og það er líka mikilvægt vegna þess að auðvitað vill enginn hér á hv. Alþingi setja lög sem gera það að verkum að við getum aldrei í framtíðinni breytt lögum um stjórn fiskveiða. Þó að ég telji að þau lög sem nú gilda séu að mörgu leyti góð og verði um nokkurt skeið þá vil ég ekki skrifa undir það í dag að þeim verði aldrei breytt, það er langt frá því.