Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:48:07 (2885)

1997-01-30 11:48:07# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:48]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er lánað út á kvótann nú þegar. Það vita allir sem til þekkja. Það er gert þannig að lánastofnanir, bankar og opinberar stofnanir, Fiskveiðasjóður m.a., láta forsvarsmenn fyrirtækja skrifa undir yfirlýsingar um að þeir framselji ekki aflahlutdeild nema að bera það undir viðkomandi aðila. Þetta hefur þekkst mjög lengi. Það hefur verið látið reyna á slíka yfirlýsingu fyrir dómstólum. Þetta er ákveðið réttaróöryggi fyrir þessar bankastofnanir. Þeim finnst þetta óþægilegt. Vitaskuld vita þeir hvað þeir eru að lána út á. Þeir eru að lána út á verðmæti sem er fólgið í skipaverðmætinu og kvótaverðmætinu. Það vita menn nákvæmlega. Þeir hafa beðið um og knúið á um lögfestingu þessa frv. Þeim finnst þetta óþægileg réttarstaða sem þeir eru í. Það er það sem málið snýst um. Hér er verið að lögfesta hluti fyrir lánastofnanir í landinu til að auðvelda þeim sína vinnu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að lánastofnanir hagi verkum sínum nákvæmlega eins og þær gera nú þegar. Það eru þá frjálsir samningar sem eru gerðir milli lánveitenda og lántakenda, útgerðarmanna í þessu tilfelli, hvort þeir skrifa upp á slíka samninga eða ekki. Það geta menn gert eftir sem áður. Ég sé enga ástæðu til að festa í lög ákvæði, eins og hér er lagt til, sem rýrir eignarrétt þjóðarinnar á þessum verðmætum. Og ég vil benda á að það er ekki að ástæðulausu að þetta frv. var margstoppað í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þetta snýst nefnilega um ákveðin grundvallaratriði. Hér er verið að takast á um þessi grundvallaratriði. Ég er vitaskuld hissa eins og aðrir að Framsfl. skuli hafa kúvent í þessu máli. Hann hafði í sjálfu sér enga ástæðu til þess vegna þess að þetta mál er aðeins bót fyrir lánakerfið í landinu. Hins vegar skapar það óöryggi varðandi eignarréttarákvæðin. Það er ósanngjarnt að hér skuli fest í lög að hægt sé að fá lán út á veiðiheimildir sem er úthlutað með þeim hætti sem við þekkjum í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þetta mál snýst ekki um fiskveiðistjórnarkerfið og það snýst heldur ekki um framsal. Það snýst um að tryggja hagsmuni lánastofnana í landinu. Ég er andvígur þessari framsetningu.