Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:50:18 (2886)

1997-01-30 11:50:18# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:50]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. er sem sagt með réttaróöryggi og móti réttaröryggi miðað við þessa ræðu hans. Það er rétt að eins og framkvæmdin er í dag þá skrifa útgerðarmenn undir samkomulag um að flytja ekki aflahlutdeild af fiskiskipum og það er það sem skapar þetta réttaróöryggi að mál hafa fallið fyrir dómstólum sem hafa kveðið á um að þetta sé óheimilt. Þess vegna erum við komin fram með þetta frv. og þess vegna viljum við meiri hlutinn hér á hv. Alþingi setja lög um þetta. En hv. þm. er að sjálfsögðu heimilt að vera á móti þeim eða sitja hjá eða hvernig sem hann vill nú að það verði að lokum.

Hv. þm. kom inn á það að frv. hefði verið margstoppað hér í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég tel það ekki til fyrirmyndar. Ég tel það ekki til fyrirmyndar að margkoma fram með stjfrv. hér á hv. Alþingi, og ná því svo ekki fram. Þess vegna var það sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn fóru í þá vinnu að finna útfærslu sem allir gætu sætt sig við. Hún hefur fundist og eins og ég hef sagt áður er ég mjög hreykin af því hvernig málum lyktaði.