Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 11:52:29 (2887)

1997-01-30 11:52:29# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[11:52]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að tíma mínum í umræðunni hefur verið flýtt. Ég gerði satt best að segja ekki ráð fyrir að tala fyrr en eftir klukkutíma eða svo. Ég vil þakka fyrir að komast að strax. Ég mun þá bara segja meira síðar í umræðunni. En ég furða mig eins og aðrir á því að enn og aftur er komið til umræðu frv. ríkisstjórnarinnar um samningsveð og nú með því ákvæði sem var fellt út í fyrra, að taka á veðsetningarheimildum á kvóta.

Hér er auðvitað um stórmál að ræða eins og fram hefur komið. Ég verð að byrja á að láta í ljós vonbrigði mín með ræðu hæstv. sjútvrh. Það vantar að mínu mati algjörlega rökstuðning fyrir því að taka aftur inn í þetta frv. ákvæði um veðsetningu aflahlutdeildar.

Reyndar hefur, herra forseti, það sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt hér í umræðunum ekki síður vakið athygli mína. Sérstaklega tilraunir hans til að fela meginkjarna þessa máls með því að tala um hvort þá væri ekki verið að ógna 1. gr. laga um stjórn fiskveiða ef aflahlutdeild væri ekki hægt að framselja. Punkturinn er sá, eins og komið hefur fram hjá hv. stjórnarandstöðuþingmönnum, að þrátt fyrir þetta skringilega orðalag á 3. gr. frv. um að banna fyrst veðsetningu á kvóta einan sér en síðan að taka fram að það megi ekki taka veðsetningu í skipi nema með kvótanum, það megi ekki skilja frá, þá er punkturinn sem sagt sá að það er verið að heimila veðsetningu á kvóta, með skipi að sjálfsögðu af því að aflahlutdeildum er úthlutað á skip.

Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa komið fram hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni og fleirum að hér er auðvitað fyrst og fremst verið að styrkja stöðu peningastofnana og lánastofnana á kostnað sameignarákvæðisins. Ég er sannarlega sammála því að vissulega mun sameignarákvæðið standa áfram. En hvað gerum við ef kvótinn er meira og minna kominn í eigu peningastofnana? Þess vegna erum við kvennalistakonur algjörlega andvígar því að heimila veðsetningu á kvóta. Þess vegna m.a. lögðum við fram frv. í gær þar sem lagt er til að sett verði inn í stjórnarskrá að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Það þarf að mínu mati að styrkja stjórnskipulega stöðu þess ákvæðis ef það slys ætti sér stað að þetta frv. yrði að lögum.

Ég er hér með útskrift af ræðu hæstv. sjútvrh. frá umræðunum í fyrra þar sem hann lýsir mjög nákvæmlega hvernig þessi viðskipti eiga sér stað nú og að þetta sé ekkert vandamál miðað við núverandi ástand. Peningastofnanir fái bara skrifaðar upp heimildir eða vilyrði um að flytja ekki kvótann og hann veit ekki til að það hafi nokkurn tímann skapast vandamál þá, fyrir ári síðan, út af þessu máli. Það er því alveg ljóst að það eru einhver önnur rök að baki þessa frv. heldur en þau að tryggja stöðu peningastofnana.

Ég er því með spurningu til hæstv. ráðherra. Ég ætla ekki að lengja mál mitt að sinni, það er hægt að ræða mjög mikið um þetta mál. Ég sit í hv. allshn. og mun því fá tækifæri til að ræða um þetta mál mjög ítarlega og þá ekki síður aðrar greinar frv. sem ég tel margar hverjar til bóta enda mjög gömul lög í gildi um samningsveð almennt. En ég tek undir að það ber að taka öll ákvæði er varða veðheimildir á aflahlutdeildum út úr 3. gr. frv. En ég er með spurningu til hæstv. ráðherra. Eins og fram hefur komið í umræðunum er aflahlutdeildum úthlutað til eins árs í senn. Ég geri ráð fyrir því að mjög oft séu lán til margra ára. Því vil ég spyrja: Hvað gerist að mati ráðherrans ef kvótakerfinu verður breytt, t.d. ef kvóti verður minnkaður frá einu ári til annars? Ef það verður tekið upp breytt kerfi, t.d. tekið upp sóknarmark? Eða ef úthlutunarreglunum verður breytt á einhvern hátt, t.d. að kvótinn fari til sjómanna eða til byggðarlaga eða til þeirra sem nú vilja vera útgerðarmenn en ekki þeirra sem voru það 1983? Hver er þá réttarstaða peningastofnana í fyrsta lagi, viðkomandi útgerðar í öðru lagi og ríkisins í þriðja lagi sem fer með þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar? Það er mjög mikilvægt að réttarstaða þessara aðila sé alveg skýr. Mér leikur forvitni á að vita, herra forseti, hvernig hæstv. sjútvrh. sér þessa réttarstöðu, annars vegar ef þetta frv. verður að lögum og hins vegar miðað við núverandi ástand. Með öðrum orðum óttast ég eins og fleiri aðilar hér að með því að samþykkja þetta frv. verði mun erfiðara að breyta þessu kerfi, það verði sem sagt fest í sessi og það er að mínu mati hin raunverulega ástæða fyrir því að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. flytur þetta frv.