Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:04:15 (2890)

1997-01-30 12:04:15# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:04]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. getur auðvitað komið hér upp og sagt: Kjarni þessa máls er tunglið. En það stendur ekkert um það í þessu frv. Ef hv. þm. ætlar að tala um kjarna þessa máls verður hún að tala um það sem stendur í frv. og það sem stendur í frv. er þetta, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.``

Það sem stendur hér er það sem ég hef verið að segja. Það er verið að takmarka framsal og hv. þm. getur ekki komið upp og sagt: Kjarni málsins er einhver allt annar. Hún getur alveg eins sagt að kjarni málsins sé tunglið eins og að flytja þá ræðu sem hér var flutt. Ef hv. þm. ætlar að tala um kjarna málsins verður hún að tala um það sem stendur í frv. og það sem stendur í frv. er það að við tiltekin skilyrði er verið að takmarka framsal. Þegar hv. þm. segir að ákvæðin veiki 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, þá verður hún að skýra orsakasamhengið á milli þess að takmörkun á framsali veiki 1. gr. Það hefur hv. þm. ekki gert og það hlýtur að vera kallað eftir því jafnoft og hv. þm. hefur þessa fullyrðingu yfir.