Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:11:07 (2893)

1997-01-30 12:11:07# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:11]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. ,,Skip og kvóti er eitt hið sama. Það er eðlilegast að líta á skipið og kvótann sem eina heild.`` Þetta er tilvitnun í frv. sem við erum að ræða. Þetta er í skýringum við 3. gr. frv. og styður raunverulega það sem við höfum verið að segja allan tímann. Þetta er eitt og hið sama, kvóti og skip, því það er ekki hægt að úthluta kvóta nema á skip.

Undantekningin sem frv. gerir ráð fyrir er að hægt er að flytja kvótann ef allir veðhafar samþykkja. Það er alveg ljóst hvað hér er verið að gera. Það er hægt að fá lán út á kvótann, kvóta og skip. Það er hægt að fá lán út á þessi heildarverðmæti og það er verið að tryggja lánveitandann, veðhafann, hvort sem það er lánastofnun eða aðrir aðilar. Hann er tryggður með því að ekki er hægt að færa varanlegu aflahlutdeildina nema með samþykki hans vegna þess að verið er að tryggja hans hagsmuni. Þetta er ekki einu sinni orðaleikur. Þetta er röksemdafærsla hv. þm. hér áðan. Hún er í mesta lagi brosleg. Það er náttúrlega villandi að ræða um að hér sé einhver sigur unninn fyrir Framsfl. í þessu máli. Þetta er fráleitt. Menn verða að vita um hvað málið snýst. Það snýst ekki um framsal. Það snýst um það að tryggilega er gengið frá því að hægt sé að veðsetja kvóta hér á landi, kvóta og skip, og réttindi þeirra eru tryggð sem lána út á slík verðmæti. Út á það gengur þetta frv. og ekkert annað. Hv. þm. verður þá að lesa sig betur til, m.a. þessa grg. með frv. sem ég vitnaði til, þar sem kemur alveg skýrt fram að litið er á skip og kvóta í samhengi og saman. Eina undantekningin sem gerð er í frv. til að tryggja lánveitandann er ef fært er á milli. Um það snýst málið. Menn eiga þá bara að vera fúsir og segja: Við teljum rétt að lögfesta þetta vegna þess að það eyðir réttaróvissu, en þá eiga menn heldur ekki að segja að hér sé verið að gera nokkurn skapaðan hlut annan en rýra eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni.