Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:30:58 (2902)

1997-01-30 12:30:58# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:30]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst og fremst að gera að umtalsefni 4. mgr. 3. gr. frv., þ.e. þá grein sem við höfum verið að ræða hér í allan dag. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að frv. er miklu umfangsmeira og ef til vil hefðu menn átt að fjalla um aðra þætti þess. Ég tel að hér sé að mörgu leyti vel að verki staðið, þ.e. að setja heildarlöggjöf um samningsveð og að það hafi verið brýnt mál. Ég treysti því að umræðan geti kannski eitthvað færst á það svið. Þrátt fyrir það veit ég að í hv. allshn. þar sem frv. verður til skoðunar verður farið vel yfir þann þátt málsins.

Hér erum við að skiptast á skoðunum um pólitík í þessu máli og mismunandi sjónarmið koma skýrt fram í 4. mgr. 3. gr., þ.e. veðsetningu á kvóta eða aflaheimildum eins og við kjósum að kalla það. Það hafa komið fram meginröksemdir í þessu máli og málið er reyndar ekki nýtt. Ef ég þekki rétt til var þetta nokkuð oft til umfjöllunar í fyrrv. ríkisstjórn og var þá stoppað á pólitískum forsendum vegna þess að menn töldu að með lögfestingu í því formi sem hér er lagt til væri verið að grafa undan eignarréttarákvæðum í lögum um stjórn fiskveiða, eignarrétti þjóðarinnar á fiskimiðum landsins.

Í þáv. ríkisstjórn varð niðurstaðan að leggja þetta frv. ekki fram. Hins vegar liggur fyrir pólitísk samstaða núna milli ríkisstjórnarflokkanna, bæði Sjálfstfl. og Framsfl. Ég veit ekki til þess að Sjálfstfl. hafi nokkuð breytt um skoðun í þessu máli. Þeir hafa verið talsmenn fyrir því að setja þessa löggjöf nokkuð lengi. Framsfl. var hins vegar með aðra afstöðu í þessu máli, ef ég man rétt, þó svo að þeir hafi breytt algjörlega um svip og áherslur eftir að þeir komu í ríkisstjórn en það er þeirra mál. (SJS: Þeir voru beygðir.) Ef til vill er það rétt. Þeir voru einfaldlega beygðir af meirihlutaflokknum í ríkisstjórn. Það er ekki í fyrsta málinu sem það er gert en það verða þeir að eiga við sjálfa sig og þá sem kusu þá. Okkur ber skylda til að benda á það og við höfum oft á tíðum gert það.

Þetta mál fjallar um að útbúa ramma fyrir veðsetningu á skipi og aflaheimildum. Það er alveg ljóst, eins og ég hef margbent á í andsvörum að aflaheimildum er einungis úthlutað á skip og hér er verið að kveða skýrt á um hvernig þessi veðsetning fer fram. Það má ekki selja frá sér varanlega aflahlutdeild nema allir veðhafar samþykki það. Það kemur alveg skýrt fram í greinargerð með frv. að hér er fyrst og fremst verið að tala um þau heildarverðmæti sem til ráðstöfunar eru. Það er gert lítið úr verðmæti skipsins en þeim mun meira talað um og bent á þau verðmæti sem felast í aflaheimildum. Það segir í greinargerð með frv., með leyfi forseta:

,,Af áskilnaði 4. mgr. 3. gr. um þinglýst samþykki veðhafa leiðir að sá sem hyggst kaupa réttindin af handhafa þeirra verður að kynna sér það í þinglýsingabókum hvort þeir sem veðréttindi hafa eignast í fjárverðmæti því sem réttindin eru skráð á [sem sagt skipinu] hafi samþykkt aðskilnað fjárverðmætisins og réttindanna.`` --- Þar er átt við aðskilnað skips og kvóta.

Þetta þýðir í framkvæmd að kjósi útgerðarmaður, sem er með lán sem er tryggt með veði í skipi hans, að framselja frá sér aflahlutdeild, t.d. 0,5%, þá verður hann að ganga fyrir alla sína veðhafa og fá uppáskrift og leyfi þeirra fyrir því að þeir heimili þetta framsal. Af hverju þetta? Af hverju þarf uppáskrift þessara manna? Jú, vegna þess að þeir eru með veð í skipinu, hafa lánað út á þetta heildarverðmæti, skip og kvóta, og það er talið rétt af hálfu löggjafans með þessu frv. að tryggja stöðu hans gagnvart lántakandanum með því að menn geti ekki tekið hluta af verðmætinu og ráðstafað því. Þetta er nákvæmlega það sama og ef tekið er lán með veð í húsi þá ber lántakanda skylda til að halda húsinu við þannig að það sé í eðlilegu ásigkomulagi og standi sem trygging fyrir láninu. Sá sem tekur lán og setur eitthvað að veði hefur skyldur. Í þessu tilfelli eru settar strangar skyldur á lántakandann, hann má ekki ráðstafa né rýra þetta heildarverðmæti sem lánað var út á nema með samþykki þess sem lánar.

Það er alveg ljóst af þessu um hvað málið snýst. Það snýst um mikla fjármuni. Þetta snýst um verðmæti veiðiheimilda. Við værum sjálfsagt ekkert að tala um þetta mál ef þetta væri eitthvert minni háttar mál. Þetta snýst hins vegar um verðmæti veiðiheimilda. Við höfum oft tekist á um það í pólitískri umræðu, einmitt verðmæti þessara veiðiheimilda og hvernig þeim er úthlutað, hvernig viðskipti fara fram, hver á þau og með hvaða hætti skuli greiða fyrir afnot af þeim. Ég ætla ekki að fara í þá umræðu en er einungis að draga fram af hverju þetta frv. er komið fram.

Nú er frv. ekki komið fram af því að hinn sterki hagsmunahópur á bak við þessa ríkisstjórn, Landssamband íslenskra útvegsmanna, óskaði eftir því. Það er ekki svo. Ég veit ekki til þess að útvegsmenn hafi ályktað á nokkurn handa máta um þetta frv. Ég þekki hins vegar marga útgerðarmenn sem finnst þetta vera óþægilegt. Óþægilegt að eina ferðina enn sé verið að draga kvótamálið inn í umræðu og núna út frá nýju sjónarhorni. Óskin um lögfestingu þessa frv. kemur ekki úr þeirri áttinni.

Óskin um lögfestingu þessa frv. kemur frá lánastofnunum og sjóðum þó það séu aðrir sem málið varðar, þ.e. allir sem lána útgerðaraðilum og taka veð. Vitaskuld varðar þetta þá alla vegna þess að menn eru fyrst og fremst að lána útgerðarmönnum á Íslandi í dag út á verðmæti veiðiheimilda. Menn eru ekki að lána út á, segjum fiskverkunarhús nema í undantekningartilvikum. Þetta vita allir sem eitthvað þekkja til í sjávarútvegi. Um þetta snýst málið. Þeir sem lána og taka veð vilja að réttur þeirra sé vel tryggður. Þeir hafa tryggt sig hingað til með þeim hætti að þeir hafa lánað með veði í skipum en látið menn skrifa upp á yfirlýsingu um að þeim væri óheimilt að ráðstafa aflahlutdeildinni, jafnvel aflamarkinu. Það eru margs konar yfirlýsingar til, þetta eru frjálsir samningar. Það má ef til vill segja að lántakandinn í þessu tilfelli, útgerðarmaðurinn sem þarf á láninu að halda, sé oft ekki í sterkri stöðu gagnvart sjóðum og bönkum í þessu tilfelli. Það eru alveg eins opinberir sjóðir og ríkisbankar sem hafa tekið þátt í að skrifa upp á slíkar yfirlýsingar enda er í sjálfu sér ekkert ólöglegt við það. Þetta eru frjálsir samningar en takmarka vitaskuld möguleika þess aðila sem fékk úthlutað veiðiheimildunum, þ.e. þess sem fer með forræðið fyrir skipinu og takmarkar möguleika hans til þess framsals sem önnur lög kveða á um og eru í sjálfu sér ekki hér til umræðu.

Herra forseti. Ég hefði talið að það hefði átt að láta þetta vera í þeim farvegi sem það er nú þegar. Að menn geti gert frjálsa samninga sín á milli, útgerðarmenn eða lántakendur og sjóðir eða bankar, þ.e. lánveitendur. Gert sína frjálsu samninga og yfirlýsingar um að þeir ráðstafi ekki aflaverðmætum. Það er sagt að þetta sé visst óöryggi. Ég veit ekki til þess að slíkir samningar hafi brugðist, þ.e. menn hafi ekki staðið við þá. Ég þekki það ekki nógu vel. Hins vegar skil ég ósköp vel sjónarmið banka og sjóða að vilja auðvelda sér þá vinnu varðandi lán eins og gert er með þessu frv. Með því eru þeir alveg tryggðir og þurfa ekki að gera sérstakan samning. Þeir vita, eins og sást vel á tilvitnun minni, að það er alveg ljóst hvað löggjafinn vill. Ef menn ætla sér að kaupa aflaverðmæti þá verða menn að skoða veðbókarvottorðið og spyrja alla aðilana: Eruð þið búnir að veita samþykki fyrir því að þessi aðili selji aflaheimildir á þennan hátt? Það er alveg ljóst hvað löggjafinn er búinn að gera í þessu efni. Hann er að tryggja hag lánveitandans mjög vel með þessu frv. Þetta snýst um heildarverðmæti skips og kvóta og þetta eru háar tölur sem við erum að tala um. En ég hefði ekki talið rétt að þetta væri lögfest með þessum hætti þótt svo ég skilji alveg sjónarmið banka og sjóða, að vilja auðvelda sér vinnu og skapa sér betri réttarstöðu hvað varðar tryggingar.

Það er vegna þess að þau miklu verðmæti sem hér er úthlutað hafa mjög mikla sérstöðu í okkar þjóðfélagi. Ég held að engin verðmæti hafi meiri sérstöðu í okkar þjóðfélagi heldur en verðmæti aflaheimilda. Í fyrsta lagi er kveðið á um það í lögum um stjórn fiskveiða að þetta sé sameign þjóðarinnar. Í öðru lagi er þessum verðmætum úthlutað tímabundið og það er litið svo á að hér sé ekki um að ræða úthlutun á eign. Hins vegar er hér um að ræða úthlutun á afnotarétti, að menn hafi rétt til að draga eitthvað tiltekið magn úr sjó og fá úthlutað þessari aflahlutdeild í prósentum og síðan aflamarki árlega. Það er alveg skýrt að löggjafinn getur í sjálfu sér hvenær sem er breytt þessum lögum. Hins vegar eigum við ekki að horfa fram hjá því að lög eða kerfi sem gildir í langan tíma öðlast vissan rétt í okkar þjóðfélagi. Við vitum að með þessar veiðiheimildir erum við dálítið á gráu svæði. Veiðiheimildir eru eignfærðar í fyrirtækjum og þær eru afskrifaðar í fyrirtækjum nákvæmlega eins og aðrar eignir, vörubílar, fasteignir, eða eitthvað annað slíkt. Það má að því leyti segja: Ja, geta menn eignfært eitthvað sem þeir eiga ekki? Þá er hægt að svara: Þetta er ekki eign á fiski í sjónum. Þetta er hins vegar afnotarétturinn sem menn hafa fengið úthlutað af hálfu ríkisins.

Það er hins vegar matsatriði hvernig þróunin verður og það er þess vegna sem þetta frv. skiptir máli. Vegna þess hvað réttarstaða varðandi úthlutun veiðiheimilda er óljós vegna þess að það er tekist harkalega á einmitt um úthlutun þessara verðmæta. Skoðun okkar jafnaðarmanna og fleiri í þjóðfélaginu er þekkt. Við viljum m.a. leggja á veiðileyfagjald við þessa úthlutun. Ein af röksemdunum fyrir því er sú að undirstrika enn frekar eignarrétt þjóðarinnar á þessum heimildum alveg eins og kveðið er á um í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna. Einfaldlega vegna þess að sá sem greiðir leigu er þá að greiða fyrir eign sem hann á ekki. Annars væri hann ekki að greiða leigu. Það er ein af röksemdunum fyrir veiðileyfagjaldi en þær eru fjölmargar, en kannski sú sterkasta, sem við að hluta til erum að tala um hér, er að það skuli vera úthlutað svona geysilegum verðmætum af hálfu almannavaldsins af sameign þjóðarinnar. Síðan er hún fénýtt á margs konar máta af hálfu þeirra sem fá þessar úthlutanir og samkvæmt núgildandi lögum greiða þeir ekki neitt fyrir þessa heimild.

Við erum að tala um fénýtingu veiðiheimilda í frv. Fénýting veiðiheimilda er mjög algeng og endurspeglast í öllum kaupum og leigu á aflaheimildum. Hér erum við að hluta til að tala um þessa fénýtingu og hvernig við sköpum lagaramma um þá staðreynd að hægt er að fá lán út á verðmæti sem eru fólgin í veiðiheimildunum.

[12:45]

Við erum í sjálfu sér alltaf að tala um sama hlutinn, þ.e. um hin miklu verðmæti sem eru fólgin í veiðiheimildum og það er e.t.v. besta dæmið um að það er framtíðarstyrkleiki fólginn í íslenskum sjávarútvegi. Og e.t.v. er það ánægjulegasta í sambandi við allt tal um mikil verðmæti að menn hafa trú á því að afrakstur þessarar atvinnugreinar muni vera mjög bærilegur og mikill á næstu árum. Það er því dálítið erfitt að ræða þessi mál nema að draga þau aðeins inn í aðra umræðu. Ég ætla að vísu ekki að fara út í þessa almennu umræðu nema eins og ég gerði hér, þ.e. að vekja athygli á samhengi við önnur mál. Ég tel að þetta frv. tryggi betur fénýtingu veiðiheimilda og tryggi lánveitendur betur en var áður. Ég tel að einmitt lögfestingin á þessum ramma sem sett er í frv. grafi undan 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, þ.e. um sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum. Þetta breytir í sjálfu sér ekki ákvæðinu en ég met það svo að lögfesting þessa frv. sé liður í þróun sem ég tel vera óæskilega. Ég tel óæskilegt að svona sé kveðið á um veðsetningu eða fénýtingu veiðiheimilda.

Ég hefði talið að það hefði alveg verið hægt að búa við frjálsa samninga milli lántakenda og lánveitenda um nokkra hríð enn, a.m.k. á meðan hin mikla pólitíska umræða stendur um þessi mál. Hún er í miklum gangi bæði milli stjórnmálaflokka og í þjóðfélaginu og við erum öll leitandi að heppilegu skipulagi varðandi þessa þætti. Ég hefði talið rétt, herra forseti, að á meðan sú grundvallarumræða færi fram, flýttu menn sér ekki við að lögfesta þessi ákvæði eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég mun leggjast gegn þessu ákvæði frv., herra forseti, og tel ekki tímabært að það nái fram að ganga í þessu formi. Ég tel þetta mál alls ekki vera komið í þann farveg að það sé hæft til ákvarðanatöku. Það er mín skoðun á þessu. Aðrir líta e.t.v. öðruvísi á það. En ég lít svo á að það sé miklu meira í þessu máli en menn vilja oft vera láta.