Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 12:55:12 (2907)

1997-01-30 12:55:12# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[12:55]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki bara það að það mundi skapa ósanngirni gagnvart sjávarútveginum ef við tryggjum minna viðskiptaöryggi þar og að það halli á þá atvinnugrein gagnvart öðrum, það halli á landsbyggð gagnvart þéttbýli. Þetta gæti líka leitt til mismununar innan sjávarútvegs. Við vitum og það er þekkt á fjármálamarkaðinum að stóru fyrirtækin eiga mun hægara með að fá lán og þar eru ekki gerðar sömu kröfur til veðsetningar. Þau geta aflað fjármagns með almennum útboðum á verðbréfum og með sölu hlutabréfa, en það eru gerðar miklu meiri kröfur um veð í minni útgerðum, einstaklingsútgerðum, trilluútgerðum og minni útgerðum. Þannig að það að taka burtu þetta viðskiptaöryggi í sjávarútvegi en ekki annars staðar gerir ekki bara að halla á sjávarútveginn og sjávarútvegsplássin gagnvart þéttbýlinu, það getur líka hallað á minni útgerðaraðilana meðan að þeir stærri kæmu betur út úr því. Og ekki síst út frá því sjónarmiði tel ég ekki rétt að draga úr viðskiptaöryggi á þessu sviði í okkar atvinnulífi.