Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 13:29:49 (2909)

1997-01-30 13:29:49# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[13:29]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni hér á undan er þetta ekki í fyrsta skiptið sem þetta frv. kemur til umræðu hér á hv. Alþingi. Með því er verið að laga gömul lög, reyndar frá 19. öldinni, að nútímaviðskiptaháttum. Kjarninn í þessari lagasetningu er sá að heimilt verður að veðsetja lausafé með fasteignum atvinnurekstrar sem sérstakt fylgifé. Þessar heimildir eru almennar og ná til allra atvinnugreina. Ég tel þetta mikið framfaraspor og að hér sé um nauðsynjamál að ræða sem í rauninni hefði átt að fá lögfestingu fyrr. En ég vona svo sannarlega að nú séu þessi mál á þeim vegi að frv. verði afgreitt sem lög fyrir vorið.

Það sem hefur reyndar tafið þetta mál eru skiptar skoðanir um veð í aflahlutdeildum. Með þessu frv. er verið að eyða réttaróvissu um fyrirkomulag sem er í rauninni í gildi. Að eyða þessari óvissu er vissulega bæði lánastofnunum í hag eins og fram hefur komið og það er líka sjávarútveginum í hag. Ég vil taka það fram að þegar ég tala um sjávarútveginn í landinu, þá tala ég um hagsmuni fleiri heldur en Kristjáns Ragnarssonar en það er oft að heyra á málflutningi manna á hv. Alþingi að sjávarútvegurinn í landinu sé Kristján Ragnarsson í eigin persónu og enginn annar, en það er vissulega ekki svo. Hagur sjávarútvegsins er hagur allra landsmanna, að hann geti gengið, að hann geti veitt atvinnu, að hann geti haldið áfram verðmætasköpun og aukið hana o.s.frv.

Reyndar er þetta frv. ekki um sjávarútvegsmál. Þetta er um veðlög, heyrir undir dómsmrn. og fjallar um siðferði í viðskiptum. En ég kem inn á þetta vegna þess að einmitt þetta atriði, deilur um veð í aflahlutdeild, hefur tafið málið. Og þær skoðanir hafa komið fram í umræðunni, m.a. hjá hv. 11. þm. Reykn. og hv. 4. þm. Norðurl. e., að það hefði átt að láta þetta mál bíða enn um sinn, láta kyrrt liggja og hafa það fyrirkomulag sem gildir um veðsetningu aflaheimilda óbreytt að sinni, en samningar hafa verið í gildi milli aðila um að ekki sé heimilt að skilja aflaheimildir frá skipi. Þetta eru skoðanir út af fyrir sig sem ég ber fulla virðingu fyrir.

Vafalaust er það rétt sem hefur komið fram að það hefði ekki orðið kollsteypa þó að þetta hefði beðið. Eigi að síður er ankannalegt að fara að skilja þetta frá löggjöf um veðsetningu almennt og þess vegna er rétt að eyða þeirri réttaróvissu sem er um þessi efni um leið og ný veðlög eru sett.

Því hefur einnig verið haldið fram að þessi löggjöf hefði áhrif á 1. gr. laganna um fiskveiðistjórn, um eign þjóðarinnar á auðlindinni. Þar er ég ósammála. Mér finnst 1. gr. laganna og eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni óháð þessu máli. Það er alveg skýrt og ljóst að Alþingi hefur fullan rétt til þess að breyta þeirri löggjöf hvenær sem vera skal. Ég er enginn áhugamaður um að breyta henni í aðalatriðum, en ég er í meginatriðum stuðningsmaður þess kerfis sem er í gildi varðandi fiskveiðistjórn. Hins vegar er ég tilbúinn til þess að ræða breytingar á ýmsum þáttum sem menn hafa áhyggjur af við framkvæmdina. Ég er tilbúinn til þess að ræða hvernig framsali er háttað og fara yfir þau mál. Ég er tilbúinn að ræða það hvernig hægt er að koma í veg fyrir frákast afla og fleiri þætti sem hafa verið í umræðunni eins og það að aflaheimildir fara á fáar hendur. En ég er enginn áhugamaður um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í grundvallaratriðum, það er langt frá því. En það frv. sem hér er til umfjöllunar hefur engin áhrif þar á. Það er alveg ljóst að veiðiheimildir hafa verið skertar stórlega á undanförnum árum. Ef útgerðarmenn hefðu talið sig eiga þetta með fullum rétti, þá þykir mér ótrúlegt annað en að mál hefði verið höfðað á hendur ríkinu til ógildingar þeirri skerðingu. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að þetta frv. hafi áhrif á fiskveiðistjórnarlögin.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri að sinni. Ég hef tækifæri til þess í þeirri nefnd sem fjallar um málið, allshn., að koma að því og ræða það þegar það kemur væntanlega frá nefnd síðar í vetur. Ég vildi koma þessum atriðum sem ég tel grundvallaratriði í málinu á framfæri. Ég tel óskynsamlegt að láta það bíða að eyða réttaróvissunni um veiðiheimildirnar, tel að það gæti ef til lengdar lætur rýrt kjör sjávarútvegsins hjá lánastofnunum, leitt til verri kjara, þó að ég taki undir það að vafalaust hefði það ekki leitt til neinnar kollsteypu þó að þetta hefði verið látið bíða um sinn. En ég tel rétt að ganga frá þessu máli þegar er um að ræða heildarendurskoðun á þessari löggjöf. Að öðru leyti mun ég fjalla um málið í nefnd, en vildi koma þessum atriðum á framfæri.