Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 13:55:25 (2911)

1997-01-30 13:55:25# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[13:55]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar um þetta efni. Ræðan bar þess merki að hún var byggð á vönduðum undirbúningi. Hann hafði lagt sig fram við að kynna sér málið, kallað til lögfræðinga, spurt skýrra spurninga og fengið skýr svör og mótaði sína afstöðu á grundvelli þess, þar á meðal því eins og fram kom að lögfesting þessa frv. að mati hans og þeirra lögfræðinga sem hann leitaði til dragi úr vægi 1. gr. um stjórn fiskveiða, um sameign þjóðarinnar auk fjölda annarra álitamála sem vöknuðu og komu fram í hans máli.

Þó svo þeir lögfræðingar sem hann leiti til séu vitaskuld enginn dómur þá staðfestir þetta það sem við höfum haldið fram að þetta mál er mikið álitaefni og það er ekki hægt að knýja það áfram með þessum hætti án þess að skoða það í víðara samhengi. Nú er hér um að ræða einn stjórnarþingmann. Ég veit ekki hvort aðrir stjórnarþingmenn hugsi svipað. Það má vera ef menn standa við fyrri málflutning sinn, þ.e. ýmsir stjórnarliðar. En, herra forseti, eftir að hv. þm. Kristján Pálsson flutti þessa ræðu þá trúi ég ekki öðru en ríkisstjórnarflokkarnir hugsi sig tvisvar um og taki þetta umdeilda ákvæði frá áður en verður af lögfestingu frv. að öðru leyti.

Ég vil einnig geta þess og koma því að hér --- ég veit ekki hvort það hefur komið fram í umræðunni --- að ég teldi rétt að auk þess sem málið fer til allshn. í skoðun þar yrði því jafnframt vísað til umsagnar sjútvn. Ég teldi það eðlilega málsmeðferð í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram sem tengist mjög svo sjávarútvegsmálum.