Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 13:57:20 (2912)

1997-01-30 13:57:20# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[13:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson á lof skilið fyrir það að hann stendur við sína sannfæringu ólíkt öðrum þingmönnum sem höfðu uppi mikinn hávaða gagnvart þessu frv. Þar á ég við hv. þingmenn Framsfl. sem í þessu máli hafa verið beygðir og kúskaðir til hlýðni og eru það svo sem engin nýmæli. Mennirnir sem jafnvel sögðu að aldrei skyldi það verða að óveiddir fiskar í sjónum skyldu veðsettir, sitja nú þegjandi í þingsölum og mega ekki mæla.

Herra forseti. Ræða hv. þm. Kristjáns Pálssonar fjallaði að verulegu leyti um þær breytingar sem frv. tók í meðförum stjórnarflokkanna á meðan á ákveðinni togstreitu stóð þeirra í millum. Framsfl. hefur mjög stært sig af því að hafa heiðurinn af þessum breytingum og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur kallað það sérstakan sigur fyrir Framsfl. og persónulegan sigur fyrir sig. Niðurstaða hv. þm. er hins vegar sú að með þessum breytingum sem þarna urðu sé fundin eina raunhæfa leiðin til að hægt sé að veðsetja kvóta (Gripið fram í: Er þingmaðurinn í andsvari við Kristján Pálsson?) og þess vegna spyr ég hv. þm. Kristján Pálsson: Er það rétt skilið hjá mér að hv. þm. sé þeirrar skoðunar að það sem lukkuriddarar Framsfl. kölluðu stórkostlegan sigur, stuðli í rauninni að því að hægt sé að veðsetja kvótann?