Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 13:58:56 (2913)

1997-01-30 13:58:56# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[13:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr hvort þessi breyting sé að mínu mati eina leiðin til þess að hægt sé að veðsetja kvótann og ég sagði áðan að svo væri, að mér fyndist að niðurstaðan væri einfaldlega sú þar sem lög um stjórn fiskveiða gera ekki ráð fyrir því að hægt sé að úthlutaða kvóta á neitt annað en skip þannig að veðsetning á kvóta einum og sér er ófær, hún er ómöguleg. Eina færa leiðin í mínum huga er að veðsetja hann með skipi eins og verið er að gera ráð fyrir í þessu frv.

Ég tek það skýrt fram að þeir sem ég tala við í mínum flokki og hafa þessa sannfæringu eins og hv. þm. Framsfl. trúa því að þetta sé ekki veðsetning á kvóta. Það er þeirra trú. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirra skoðun (GÁ: ...maður sér það.) Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirra skoðun, hv. þm. Guðni Ágústsson, og þess vegna hef ég talið nauðsynlegt --- og ég hef fengið stuðning við það, eftir því sem ég best veit, frá hæstv. dómsmrh. --- að öll þessi atriði verði skoðuð nákvæmlega og ekkert verði dregið undan. Í þeirri trú fer ég yfir þetta mál í hv. allshn. og móta afstöðu mína út frá þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir þá lögmenn sem ég treysti og í framhaldi af því þeirri niðurstöðu sem kemur út úr nefndinni.