Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:01:58 (2915)

1997-01-30 14:01:58# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:01]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek mjög undir með hv. 10. þm. Reykn. að það er brýnt að skoða alla þætti og allar hliðar þessa máls og ekkert eðlilegra en hv. nefnd kalli til alla þá sérfræðinga sem nauðsyn krefur í því efni. Ég veit ekki hverjir þeir lögmenn eru sem hv. þm. vitnaði til, en mér heyrist, eins og hann lýsir áliti þeirra, að niðurstaðan sé ekki byggð á lagalegum rökum. Það getur vel verið að þeir hafi þessa skoðun en hún er ekki byggð á lagalegum rökum. Ef menn lesa athugasemdir með frv. sem skýra frumvarpsgreinarnar sem samdar eru af prófessor Þorgeiri Örlygssyni, sem er prófessor í þessum fræðum, þá kemur alveg gagnstæð niðurstaða fram. Ég fullyrði að hann er ekki lakari lögfræðingur á þessu sviði, prófessorinn í þessari grein, heldur en þeir lögfræðingar sem voru ónefndir í umræðunni.

Það er framsal á aflaheimildum í dag. Útgerðarmaður getur selt þær öðrum útgerðarmanni, útgerðarmaður getur selt skip með aflaheimildum til annars útgerðarmanns. Hann getur líka selt það til banka. Enginn hefur haldið því fram að það veiki 1. gr. frv. um stjórn fiskveiða. En ef þessi eignayfirfærsla fer fram við nauðungarsölu en ekki frjálsa sölu á það að veikja 1. gr. og skapa skaðabótarétt. Ef frjáls sala fer fram í dag, þá eru allir sammála um að það skapi ekki skaðabótarétt. En hvaða rök eru fyrir því að nauðungarsala á milli sömu aðila skapi skaðabótarétt? Fyrir því eru engin lögfræðileg rök og af því sést best að þessi kenning fellur um sjálfa sig.