Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:06:17 (2917)

1997-01-30 14:06:17# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:06]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það breytir engu í þessu samhengi hvort eign er yfirfærð milli aðila með nauðungarsölu eða frjálsri sölu. Það hefur ekkert að segja með varanleg eignarréttindi að nytjastofnunum. Menn sjá það líka best af því að ef Alþingi tekur ákvörðun um að breyta fiskveiðistjórnarlögunum og taka upp sóknarmarkskerfi mundu sömu skip hafa veiðirétt áfram, en í stað þess að hann væri takmarkaður væri hann ótakmarkaður við hvert skip en bundinn af einu heildaraflamarki en veiðirétturinn héldist áfram. Ef menn selja skip með veiðirétti í sóknarmarki, sín á milli eða bönkum eða veðsetja slíkt skip, hver getur haldið því fram að það veiki sameignarákvæði 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna? Enginn.

Það er því alveg sama hvar komið er að þessu máli að fullyrðingar um að þetta veiki 1. gr. eða skapi skaðabótarétt hafa engin lögfræðileg rök og allir sjá hversu fáránlegt það er þegar talað er um veiðirétt sem fylgir skipi í sóknarmarki. Á þessu er enginn munur því að hér er ekki verið að gera annað en takmarka framsal og banna það í þessum tilvikum. Auðvitað getur bann við framsali ekki veikt sameignarrétt sem kveðið er á um í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna.