Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 14:33:50 (2923)

1997-01-30 14:33:50# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[14:33]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Umræðurnar um þetta mál hafa svo til alfarið einskorðast við umræður um veðsetningu aflahlutdeildar en 4. mgr. 3. gr. er mjög almennt orðaður. Þar er talað um almenn réttindi til nýtingar í atvinnurekstri sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og rætt um að það sé ekki heimilt að undanskilja þau réttindi frá verðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.

Þá vakna spurningar hjá mér um önnur slík réttindi sem menn fá úthlutað tengt tilteknu fjárverðmæti og ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. að því sérstaklega. Hvað t.d. um réttindi sem útvarps- og sjónvarpsstöðvar hljóta til aðgangs að útvarps- og sjónvarpsrásum? Nú eru þetta nákvæmlega sams konar réttindi eða sambærileg og þegar verið er að tala um úthlutun aflaheimilda, þ.e. verið er að úthluta takmörkuðum gæðum sem skammtaður er aðgangur að og úthlutað er til tiltekins tíma, til tiltekinna fyrirtækja í útvarps- eða sjónvarpsrekstri. Ber þá að líta svo á að verði þetta frv. samþykkt séu slík réttindi orðin hluti af veðandlagi veðkröfuhafa?

Tökum annað dæmi um sambærilega hluti eins og námuréttindi, þ.e. ríkið veitir tilteknum fyrirtækjum námuréttindi. Eru þá slík réttindi orðin hluti af veðandlagi veðkröfuhafa þannig að þau verði ekki skilin frá fyrirtækjunum nema með samþykki viðkomandi veðkröfuhafa? Um þetta hefur ekki verið rætt, en þetta er bara eitt dæmi af mörgum um hve flókin þessi álitamál eru. Ég bendi á að ef það er réttur skilningur hjá mér að þessi réttindi verði ekki skilin frá veðandlagi fremur en þau réttindi sem menn eru að ræða um hér, þá hefði það t.d. verið algjörlega ólögmætt af hæstv. landbrh. að taka námuréttindi frá tilteknu fyrirtæki, sem hafði námuréttindi frá ríkinu og er nú í gjaldþrotaskiptum, og veita þau öðru fyrirtæki eins og gagnrýnt hefur verið hér á Alþingi. Þetta gæti jafnvel náð til verslunarréttinda, þ.e. verslunarréttindi eru hluti af slíkum réttindum sem úthlutað er og ber þá að skilja sem svo að veðkröfuhafi sem leysir til sín við skulum segja verslun, hverrar verslunarréttindum hefur verið úthlutað til eigenda, geti haldið því fram að verslunarréttindi séu hluti af veðandlaginu og verði ekki skilin frá þeirri eign sem hann hefur komist yfir. Og ég spyr þá líka: Það er ekki séð annað af frv. eins og það liggur fyrir, og ég bið allshn. að skoða það sérstaklega, að t.d. veðkröfuhafi, sem með þessum hætti leysti til sín við skulum við segja sjónvarpsstöð í gjaldþroti, fengi með henni þá sjónvarpsrás sem henni hefði verið úthlutað af hinu opinbera, sé svo að ekki hafi verið um að ræða lagabrot af sjónvarpsstöðvarinnar hálfu sem svipti hana þeim réttindum eða réttindin séu útrunnin. Með sama hætti lendi námuréttindi í höndum þeirra veðhafa sem kynnu að leysa til sín veð í þeim fyrirtækjum sem þeir hafa lánað. Það er alveg ljóst að veðheimildirnar lenda í höndum þeirra aðila, þeirra veðkröfuhafa, sem leysa til sín sitt veðandlag. Við skulum segja að banki sem á veðkröfur í skipi og tekur þá ákvörðun að gera kröfu um að lánið sé greitt. Útgerðin getur það ekki og bankinn leysir skipið til sín. Hann er ekki bara að eignast skipið heldur veiðiheimildirnar sem skipinu hefur verið úthlutað. Þess vegna er alveg fráleitt að segja að þau ákvæði sem hér eru sett inn í 3. gr. hafi engin áhrif í þá veru að verið sé að veðsetja aflaheimildir. Það er auðvitað verið að því vegna þess að veðkröfuhafinn getur eignast aflaheimildirnar með því að ganga að sínu veðandlagi því að eigandi útgerðarfyrirtækisins í þessu tilviki getur ekki komið í veg fyrir að kröfuhafi leysi til sín veðheimildirnar vegna þess að honum er bannað það. Ég held að það sé ljósasta dæmið um að verið er að leyfa með þessu ákvæði að veðsetja veiðiheimildir. Það er verið að gera kröfuhafa fært að koma höndum yfir veiðiheimildirnar við að krefjast þess að sá sem veitt hefur veðið, heimili honum að leysa það til sín. Með því fylgja aflaheimildirnar, þar með eru þær veðsettar.

Ég held að það sé alveg sama hvað stendur í textanum hérna. Þetta er leiðin til þess að framkvæma það, til þess að tryggja að veð á aflaheimildum sé virkt. Og ég bið satt að segja um að þetta sé skoðað í allshn. hvað varðar aðra þætti í atvinnurekstrinum eins og ég lýsti hér áðan þar sem mönnum er veittur samsvarandi réttur, sjónvarpsstöðvum veittur réttur til aðgangs að takmarkaðri auðlind sem er takmarkaður fjöldi sjónvarpsrása o.s.frv.

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta ákvæði afturvirkt í 4. mgr. 3. gr.? Þ.e. veitir það lánveitendum réttindi sem þeir hafa ekki í dag? Ég skal skýra það með tveimur dæmum. Nú skulum við segja sem svo að fyrir fjórum árum hafi útgerðarfyrirtæki tekið lán og lánveitandi og lántakandi orðið sammála um að engin ástæða væri til þess að skrifa undir neinar skuldbindingar um að aflaheimildir verði ekki færðar af skipinu því að lánið væri svo lítið eða fyrirtækin svo traust. Er þetta ákvæði þá afturvirkt þannig að lánveitandinn öðlist allt í einu rétt eftir samþykkt þessa frv. sem hann hafði ekki og hafði afsalað sér í frjálsu samkomulagi þegar lánið var veitt? Er verið að veita lánveitendum rétt og taka með sama hætti af lántakendum rétt sem viðkomandi lánveitandi hafði ekki og taka rétt af viðkomandi lántakanda sem hann hafði?

Mig langar líka til þess að bæta við þessa spurningu um afturvirknina. Segjum svo að útgerðarfyrirtæki hafi tekið lán fyrir 10 árum og verið þá með 100 tonna kvóta. Lánið hafi verið veitt af bankanum miðað við eignastöðu fyrirtækisins eins og hún var þá. Síðan hefur fyrirtækið keypt 800 tonna kvóta eftir að lánið var tekið. Fær þá lánveitandinn rétt með þessu samykki til þess að koma í veg fyrir að útgerðarmaðurinn geti selt þau 800 tonn af kvóta eða eitthvað af því sem hann hefur keypt sér án afskipta lánveitandans eftir að lánið var veitt, þ.e. lánveitandinn sé kominn með margfaldan ráðstöfunarrétt og íhlutunarrétt um málefni útgerðarinnar umfram það sem hann hafði? Hann sé ekki lengur tryggður með veði í útgerðarfyrirtæki sem hafði 100 tonna kvóta sem samkomulag varð um að ekki yrði ráðstafað nema með samþykki lánveitanda, heldur sé hann allt í einu kominn með ráðstöfunarrétt yfir 900 tonna kvóta hvar af 800 tonn hafa verið keypt af viðkomandi útgerð eftir að samningur lánveitanda og lántakanda var gerður. Þetta er líka spurning um afturvirkni og ég vil fá hæstv. ráðherra til þess að svara því hvernig á að túlka það.

Ég spyr enn: Hvað um viðbótaraflaheimildir eftir samþykkt þessa frv.? Tökum aftur dæmi af sambærilegri útgerð. Nú tekur útgerðarfyrirtæki lán og það á við skulum segja 1.000 tonna kvóta. Lánið er tekið með þeim heimildum sem frv. þetta gerir ráð fyrr, þ.e. lánveitandinn er tryggður fyrir því að útgerðin selur ekkert af þessum 1.000 tonnum nema með samþykki hans. Nú líður eitt ár frá lántökunni. Þá kaupir viðkomandi útgerð önnur 1.000 tonn til viðbótar. Hún tekur lánið árið 1998 skulum við segja, á þá 1.000 tonn, kaupir síðan þúsund tonn á árinu 1999 og ætlar að selja þessi sömu þúsund tonn árið 2000. Getur þá bankinn eða veðhafinn bannað það? Getur veðhafinn bannað að útgerðin hafi rétt til þess að selja frá sér aflakvóta sem hún keypti eftir að til lántökunnar var stofnað og hefur þá veðhafinn öðlast tvöfaldan ráðstöfunarrétt varðandi kvótaviðskipti umfram það sem hann hafði?

[14:45]

Ég skil ekki hvernig menn ætla að framkvæma svona þankagang ef þeir eru eins og hæstv. sjútvrh. segist vera, fylgjandi frjálsu framsali vegna þess að það þarf ekki stóran veðkröfuhafa til að geta stöðvað öll slík viðskipti því að það verður ekki annað séð á lagagreininni í frv. en að samþykki allra veðkröfuhafa þurfi að koma til til þess að aflakvóti færist á milli aðila. Ég sé ekki hvaða ráð væri fljótvirkara til að koma í veg fyrir frjálst framsal en að leggja í hendur veðhafa að banna öll viðskipti með aflaheimildir, ekki bara viðskipti með þær aflaheimildir sem fyrirtækið á þegar lánið var tekið, heldur með allar aflaheimildir sem fyrirtækið kynni að fá úthlutað ókeypis frá hæstv. ráðherra eða keypt sér hjá öðrum útgerðarfyrirtækjum um alla framtíð.

Við skulum setja okkur í spor þeirra sem eru hrifnir af byggðakvóta og vilja ekki að kvótinn fari úr sínu byggðarlagi. Hvað gera þeir í svona tilviki, verkalýðsfélög, sveitarfélög, lífeyrissjóðir? Þeir bjóða að sjálfsögðu eitthvert lítið lán. ,,Má nú ekki bjóða þér lítið lán, elsku vinur minn, með veði í skipinu hjá þér. Ég skal ekki vera mjög kröfuharður um vaxtagreiðslur. Ég skal veita þér þetta á góðum kjörum. Þú skalt fá þetta lán mjög ódýrt.`` Svo kemur að því að viðkomandi útgerðarmaður ætlar kannski að selja 100 tonn af rækju eða öfugt, kaupa 100 tonn af rækju og selja frá sér annað eins af þorski. Bankinn samþykkir og Fiskveiðasjóður samþykkir og allir þessir aðilar. Kemur þá ekki litla verkalýðsfélagið og segir: ,,Nei. Þetta samþykkjum við ekki. Kvótinn á að vera kyrr hér og við sem lánuðum þér þó ekki væri nema 100 þúsund kall, ætlum ekkert að samþykkja þetta.`` (Dómsmrh.: Hvað er svona slæmt við það?) Þannig að hafi einhver maður á Alþingi lagt fram frv. til þess að stöðva frjálst framsal aflaheimilda þá er það hæstv. sjútvrh. því aldrei hafa mönnum verið sköpuð jafnmikil og auðveld tækifæri til þess að stöðva þessi viðskipti með lögmætum hætti (Dómsmrh.: Þingmaðurinn harmar það?) eins og hæstv. sjútvrh. Hann Steingrímur Hermannsson kemst ekki einu sinni með tærnar þar sem þessi hæstv. sjútvrh. hefur nú hælana því að hann ætlar að koma upp því kerfi að lítill lánveitandi getur komið í veg fyrir alla verslun með aflaheimildir eins og honum dettur í hug. Og hann er ekki bara að tryggja það núna. Hann er að tryggja það til allrar framtíðar því að þessi grein frv. verður ekki lesin öðruvísi en svo að viðkomandi fái þessi réttindi, ekki bara út á þá aflahlutdeild sem skipið á þegar lánið var veitt, heldur allar aflahlutdeildir sem skipið kann að fá um alla framtíð, hvort heldur það fær það ókeypis hjá ráðherranum eða kaupir það af öðrum útgerðum.

Þetta er nú öll snilldin, virðulegi forseti. Jafnvel Steingrími Hermannssyni datt aldrei svona snjallræði í hug og nú er byggðakvótinn loksins að komast á fyrir alvöru og nú loksins er fátæku verkafólki og sjómönnum gefinn kostur á því með eilítilli lagni að koma í veg fyrir það að útgerðarmenn geti verslað frjálst með kvóta sín á milli og selt kvóta af einu skipi og keypt hann á annað. (Dómsmrh.: Hvort er þingmaðurinn með því eða á móti?) Ja, mér brá nú svo mikið við að sjá svona tillögu frá hæstv. ráðherra að ég er ekki enn þá alveg búinn að átta mig á þessu. En þetta er niðurstaðan frá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra hlýtur að vita manna best hvað hann er að leggja til. Vissi hæstv. ráðherra að hann væri að leggja þetta til? (Dómsmrh.: Já, já, já.) Já, hann vissi það. Það var akkúrat mergurinn málsins. Hæstv. ráðherra er búinn að viðurkenna að hann hafi vitað það þegar hann lagði þetta frv. fram að hann væri að leggja til fljótvirkustu og auðveldustu aðferðina sem hægt er að finna til þess að stöðva verslun með aflaheimildir, til þess að stöðva frjálst framsal aflaheimilda og festa kvóta við tiltekin skip án þess að hægt sé að flytja hann í burtu. Það er gott að hæstv. ráðherra viðurkennir þetta. Hann tók það hins vegar ekki fram í framsögu sinni. En svona er nú það.

Ég hafði mikla ánægju af því að hlusta á hv. þm. Kristján Pálsson áðan vegna þess að hann hefur ekki skipt um skoðun frá því í fyrra. (KPál: Ekki enn þá.) Ekki enn þá. En það hafa aðrir hv. þm. skipt um skoðun. Einn er hér viðstaddur og annar hefur séð sóma sinn í því að vera ekki viðstaddur. Sá þingmaður sem hefur séð sóma sinn í því að vera ekki viðstaddur er hv. þm. Hjálmar Árnason. (GÁ: Hann er erlendis.) Hann er erlendis. Hann hefur meira að segja farið úr landi. Hv. þm. Guðni Ágústsson fór ekki svo langt. Hann fór bara úr forsetastóli. En hv. þm. Hjálmar Árnason sagði í fyrra þegar hann ræddi þessi mál hér, með leyfi forseta:

,,Ástæður þess að menn hafa lagst gegn veðheimildum á aflaheimildir eru auðvitað ýmsar ... en ég nefni þau grunnsjónarmið sem ég sjálfur legg til grundvallar. Það er í fyrsta lagi að auðlindin er sameign þjóðarinnar og um er að ræða afnotarétt af þessari auðlind. Með veðsetningu á lögbundnum aflaheimildum tel ég að sé verið að stíga fyrsta skref í ávísun á eign útgerða eða einstaklinga að þessari auðlind.``

Þetta sagði hv. þm. í fyrra og ég er búinn að sýna fram á hvernig veðhafar geta komið höndum yfir aflaheimildir vegna þess að það er verið að heimila það að veðandlagið nái yfir aflaheimildir í 4. gr. Og mér er forvitni á að vita: Ætlar hv. þm. Hjálmar Árnason að fylgja þessu frv. og skipta um skoðun í grundvallaratriðum eins og hann segir sjálfur, frá þeirri skoðun sem hann hafði í fyrra?

En það var annar mætur maður sem einnig talaði hér í fyrra, hinn hjartahreini, hlýi og hjartagóði þingmaður Framsfl., Guðni Ágústsson. Hann sagði að ef við gerðum þessa breytingu þá væri hættan sú að útgerðaraðallinn hefði sagt: ,,Við á Alþingi Íslendinga heimiluðum að veðsetja aflaheimildir á skipunum. Þar með er komið upp skaðabótamál og stríð og við gerum kröfur um að kerfinu sé ekki breytt.`` Hefur hv. þm. breytt um skoðun? Hann sagði líka:

,,Við verðum einnig að spyrna við fótum og koma í veg fyrir að eignir landsmanna og auðlindir til sjávar falli fáum í skaut. Alræði markaðarins og þeirra ríku má aldrei hirða afraksturinn úr höndum fjöldans, þá er friðurinn úti.``

Hvað er nú um friðinn, virðulegi forseti? Er hv. þm. orðinn svo friðsamur að hann ætli að láta forustumenn síns flokks reka þessi ummæli öfug ofan í kokið á sér? (SJS: Guðna í andsvar.)