Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:30:08 (2933)

1997-01-30 15:30:08# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:30]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Suðurl. er lögvís maður, en í þessum málflutningi hefur hann látið flokkslínuna trufla lögvísina æðimikið. Hann segir að með þessu frv. sé verið að vekja upp gamla steinsteypudrauginn, það eigi bara að taka veðsetningar í steinsteypu og föstum fjármunum en ekki meta rekstrarhæfi fyrirtækjanna. Þegar málið er skoðað og menn láta ekki flokkslínuna trufla sig, þá sjá þeir að það er alveg þvert á móti. Hér er einmitt verið að tryggja það öryggi í viðskiptum að lánastofnanir geti treyst því hver rekstrargrundvöllur fyrirtækisins er í framtíðinni. Þetta gengur í raun og veru út á það að rekstrargrundvöllurinn sé tryggður og að eigendur útgerðarfyrirtækjanna geti ekki selt aflahæfi skipsins, veiðiréttinn, rekstrargrundvöllinn í burtu. Staðreyndin er sú að hér er þvert á móti verið að tryggja að lánastofnanir geti metið rekstrarlega stöðu þessara fyrirtækja og veitt lán í samræmi við það. Þetta veit ég að jafnskarpur maður og hv. 6. þm. Suðurl. er og glöggur í lögvísindum sér ef hann fær frið fyrir flokkslínunni.