Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 15:32:08 (2934)

1997-01-30 15:32:08# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:32]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki bara viss um að ég hafi skilið hæstv. dómsmrh. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið það sem hér fór fram. Hann talar um flokkslínuna og eitthvað þess háttar sem ég ætla ekki að tala um (Gripið fram í: Og lögvísi.) og lögvísi já. Ég held að ég verði að upplýsa hæstv. dómsmrh. um að veðréttindi eru eitthvað, þá er eitthvað annað sem stendur að baki viðskiptunum. Gangi viðskipti milli A og B ekki eftir er hægt að ganga að einhverjum veðum. Þetta hefur ekkert með rekstraráætlanir að gera, þetta hefur ekkert með arðsemi að gera. Þetta eru tryggingar að baki samningum, að baki viðskiptasamböndum. Það má ekki rugla þessu saman. Það er nákvæmlega það sem veðréttindin ganga út á, að tryggja viðskipti, tryggja efndir. Þetta er einhvers konar öryggisnet, að viðskiptin gangi upp. Það hefur ekkert með rekstraráætlanir eða mat á arðsemi að gera. Ég er asskoti hræddur um að hæstv. dómsmrh. þurfi að fara í einhvers konar endurskoðun á (Gripið fram í: Endurhæfingu ...) ja, alla vega einhvers konar endurmenntun á því sem hér er verið að ræða um. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt. Þetta er sennilega eitthvað það merkilegasta sem hér hefur komið fram í dag. Ég er ekki viss um að hæstv. dómsmrh. sé alveg með það á hreinu um hvað er verið að ræða. Veð eru nokkurs konar öryggisnet eða trygging fyrir því að ef samningar milli A og B ganga ekki upp, þá geti menn gengið að veðinu. Það hefur ekkert með annað að gera. Þetta eru tryggingar. Um það snúast lög um samningsveð.