Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:09:29 (2943)

1997-01-30 16:09:29# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:09]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít nú svo á að hagsmunir lánveitenda og hagsmunir lántakenda fari algerlega saman þegar við erum að ræða um það að setja löggjöf um veðsetningu, um samningsveð í þessu tilviki. Það eru hagsmunir lántakenda að kostnaður bankakerfisins, kostnaður lánastofnana sé sem minnstur. Með því að lána sífellt aðilum sem ekki eru traustsins verðir, farga veðum eða hafa ekki tryggingu og geta þess vegna ekki borgað til baka, þá hafa lánastofnanir af þeim aðilum kostnað þannig að það er í þágu beggja aðila, lánveitenda og lántakenda, að þessir hlutir séu í góðu lagi. Það er aðalatriði málsins.

Hvað varðar það að við séum að veðsetja sameign þjóðarinnar þá líkti ég þessu áðan í minni ræðu við það að þýðingarlaust er að lána útgerðarmanni út á skip sem ekki hefur skrúfu. Sá skipstjóri sem þarf að stýra því skipi kemst aldrei á sjó. (Gripið fram í: Hann getur notað segl.) Hann gæti hugsanlega notað segl já, en við gerum tæplega ráð fyrir því í nútíðinni. Eins er þýðingarlaust að lána útgerðarmanni sem ekki hefur neinar aflaheimildir. Þess vegna þarf þetta að fara saman. Það þarf að fara saman að hafa það tryggt að útgerðarmaðurinn hafi ekki selt aflaheimildirnar burt og með þessu frv. er það gert alveg fullkomlega og það er í þágu hagsmuna bæði sparifjáreigenda og lántakenda, útgerðarmanna og þeirra sem lána útgerðarmönnum.