Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:13:30 (2945)

1997-01-30 16:13:30# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:13]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. 15. þm. Reykv. skilur þetta frv. alveg fullkomlega. Það góða við þessa útfærslu sem hefur leitt til þess að mér heyrist nú að menn muni sættast á þetta er hins vegar að það er tekið skýrt fram að veiðiheimildir einar út af fyrir sig eru ekki veðsetjanlegar. Það er samkvæmt 4. mgr. 3. gr. frv. Þær eru ekki veðsetjanlegar einar út af fyrir sig. Skip er hins vegar veðsetjanlegt og frv. gengur út á að það ekki sé hægt að stelast til þess fram hjá lánveitendum að selja kvótann burt af skipunum. Út á það gengur málið. Og ég er sannfærður um að hv. 15. þm. Reykv., svo skynsamur maður sem hann er nú, hefði stutt þessa leið. Ég veit að hann harmar það innra með sér að hafa ekki tekið þátt í að fara þessa leið á sínum tíma sem hæstv. sjútvrh. og hæstv. dóms- og kirkjumrh. leggur nú til. Hún er mjög skynsamleg og góð og ég get stutt hana. En ég vil endilega að það komi fram sem ég hef rætt í dag, hæstv. forseti, að aðalatriðið er að við þurfum að tryggja hagsmuni þeirra sem eru að taka lán og veita lán þannig að enginn velkist í vafa um að þarna er öryggi í viðskiptum aðila sem allir græða á þegar til lengri tíma er litið þannig að skúrkunum sé haldið utan þessara viðskipta.