Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:16:25 (2946)

1997-01-30 16:16:25# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:16]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Hér hafa orðið mjög viðamiklar umræður um fiskveiðistjórnarkerfið í tengslum við þetta frv. til laga um samningsveð. Er raunar ekki við öðru að búast eins miklu umróti og það stjórnkerfi hefur valdið í þjóðmálaumræðunni og ekki síst þegar tekið er tillit til þess hversu sú umræða er komin út um víðan völl. Ég ætla að gera það að umtalsefni hér á eftir hversu fáránleg þessi umræða er orðin og velta fyrir mér með þingheimi hvort þeir, sem mest hafa gagnrýnt þetta fiskveiðistjórnarkerfi, og þá ekki síst frelsið til þess að höndla með aflaheimildir, átti sig nú ekki á því að þeir hafa uppskorið annað en þeir sáðu til í þessari umræðu. Því svo er þessi umræða farin að taka út yfir allan þjófabálk að það er farið að valda verulegu tjóni meðal Íslendinga hvernig umræðan um t.d. útgerðarmenn er orðin, þeir eru nú þjófkenndir, og ég er ekki viss um að hv. 17. þm. Reykv. hafi alveg verið saklaus af því. (Gripið fram í: 15. þm.) 15. þm., já, ekki batnar staða hans við það. Þó að númerið sé rétt batnar staða hans ekki því mér fannst hann ekki vera algjörlega saklaus af því að höggva í þann knérunn að þjófkenna útgerðarmenn vegna þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við höfum hér nú.

Ég ætla hins vegar að víkja fyrst að 3. gr. frv. til laga um samningsveð sem hefur verið hér mjög til umræðu enda er þar um að ræða grundvallaratriði í þessu frv. Rétturinn til nýtingar fiskimiðanna, þ.e. aflahlutdeildin, er samkvæmt þessu frv. ekki veðsetjanleg. Það er tekið skýrt fram í frv. og verður ekki vefengt. Hins vegar er óheimilt að skilja þessi nýtingarréttindi frá veðsettu skipi nema með samþykki veðréttarhafanna. Þetta fyrirkomulag er ákjósanleg lending á viðkvæmu vandamáli og fullkomlega eðlileg ráðstöfun og þar af leiðandi í fullu samræmi við það ráð sem tekið var upp þegar gripið var til þess að setja á kvótakerfið, að kvóta var úthlutað á fiskiskip í samræmi við aflareynslu.

Mikið hefur verið talað um það hér í þingsölum og í fjölmiðlunum að aflakvóta sé úthlutað ókeypis. Þetta er nánast orðin klisja sem er endurtekin af hverjum ræðumanni hér, hverjum hv. þm. á fætur öðrum, og í helsta málgagni þjóðarinnar, Morgunblaðinu, að kvótanum sé úthlutað ókeypis. Þetta stenst ekki sögulega skoðun. Það ber að viðurkenna, finnst mér, þá staðreynd að áður en kvóti var settur á flotann höfðu menn keypt sér afnotarétt að auðlindunum --- að íslensku fiskimiðunum. Menn höfðu keypt þennan afnotarétt, menn höfðu borgað fyrir hann með peningum. Og það hafa menn raunar gert alveg frá upphafi Íslandsbyggðar. Menn hafa gert það með því að festa fé sitt í útgerð. Að sjálfsögðu var þetta ekki mikil fjárfesting framan af því að skipin voru smá en þar á móti kom að viðurinn í þeim var innfluttur og dýr. En eftir því sem tæknin hefur gert okkur mögulegt að sækja lengra út á miðin hefur þessi fjárfesting orðið dýrari og nú er svo komið að með því að fjárfesta í dýrum skipum og góðum hefur okkur tekist að gera öryggismál sjómanna mun meiri en þau hafa áður tíðkast. En þessi fjárfesting er að sjálfsögðu þeim mun meiri eftir því sem tækninni hefur fleygt fram og á færra færi að kaupa sér t.d. togara með viðeigandi aðbúnaði fyrir sjómenninna sem kostar einn og hálfan milljarð. Þessi fjárfesting í útgerð hefur alltaf verið forsenda þess að úr fiskimiðunum væri hægt að gera auðlind. Og þess vegna hefur þetta alla tíð verið það gjald sem menn hafa greitt fyrir að komast á fiskimiðin. Þeir sem heima sitja og leggja ekki fé í útgerð taka ekki þátt í því að breyta fiskimiðunum í auðlind. Það gera þeir sem fjárfesta í skipunum. Að sjálfsögðu getur almenningur og sjómennirnir tekið þátt í þessu með útgerðarmönnunum með því að kaupa í útgerðinni, með því að fá eignaraðild í henni geta þeir tekið þátt í að gera fiskimiðin að auðlind. En ég endurtek að án fjárfestingar í útgerð er ekki hægt að tala um miðin sem auðlind. Og þar af leiðandi hefur alltaf verið greitt fyrir það frá upphafi Íslandsbyggðar að komast á fiskimiðin. Einmitt þess vegna gerðist það þegar kvótinn var settur á að menn viðurkenndu þessa staðreynd og tengdu kvótann við skipin. Það var skynsamleg ráðstöfun og það er erfitt að ímynda sér aðra ráðstöfun en þessa.

Við skulum aðeins fylgja eftir þeim ágætu þingmönnum sem hér hafa gerst talsmenn sóknarstýrikerfis, þ.e. hv. þm. Vestf., Einari Oddi Kristjánssyni og Einari K. Guðfinnssyni. Mér er alla vega kunnugt um að hugmyndir hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um sóknarstýrikerfi tengjast að sjálfsögðu því að sóknareiningarnar væru framseljanlegar, að sjálfsögðu. Segjum nú sem svo að við hefðum ekki borið gæfu til þess að setja á aflaheimildakerfi í áföngum í flotanum heldur hefðum við farið leiðina sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur mælt með, sett upp tímakerfi --- sóknareiningakerfi. Það er ljóst að ef það kerfi hefði átt að ganga upp hefði þurft að draga úr aflanum. Þar af leiðandi hefði það sama komið upp og við kvótakerfið að hluti af flotanum hefði ekki verið rekstrarhæfur lengur. Ef sóknareiningarnar hefðu ekki verið bundnar við skipin og verið framseljanlegar er ljóst að hluti af flotanum hefði farið á hausinn. Enda held ég að það hvarfli ekki annað að þeim, sem einkum og sér í lagi tala nú um sóknareiningakerfið, en að það hefði verið bundið við skip og verið framseljanlegt. Það hefðu sem sagt hafist viðskipti með tíma --- viðskipti með tíma á miðunum sem væru fólgin í því að sumir hefðu keypt upp tíma af öðrum og þannig hefði verið hægt að búa til rekstrarhæfar einingar.

Nú hafa orðið hér miklar umræður um að það að óveiddur fiskur í sjó gangi kaupum og sölum þýði að verið sé að selja sameign þjóðarinnar. Hv. sjútvrh. kom inn á í ræðu sinni áðan að það væri ákveðinn samanburður sem mætti gera á milli aflahlutdeildarinnar og sóknareiningar. Ég er honum innilega sammála um að mér finnst að þetta sé það sem ekki hefur kannski komið nógu mikið í umræðuna. Segjum sem svo að við byggjum við sóknareiningakerfi og tíminn á miðunum gengi kaupum og sölum. Mundu þeir hv. þm. sem hér hafa talað um þjófnað aldarinnar, mundu þeir sem hafa talað hér um að verið væri að selja sameign þjóðarinnar --- mundu þeir telja að þessi kaup og þessi sala með tímaeiningar á miðunum væri líka höndlun með sameign þjóðarinnar? Að sjálfsögðu ekki. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir mundu ganga svo langt. Þeir mundu að sjálfsögðu, eftir einhverja umhugsun, gera ráð fyrir því að einungis væri verið að viðurkenna þær aðstæður sem voru á Íslandi þegar við þurftum að grípa til takmarkana. Og það skiptir þá kannski ekki öllu máli hvort við grípum til tímatakmarkana eða takmarkana á afla, við yrðum að hafa þær þannig að með þær væri hægt höndla og við værum ekki á nokkurn hátt með því að minnka eða draga úr því ákvæði sem kveður svo á um að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. Ég legg til að menn hugleiði þetta svolítið vegna þess að mér finnst að þetta mál varpi ljósi á það að röksemdaflutningurinn um að með þessu sé verið að draga úr eignarrétti þjóðarinnar á auðlindunum gengur ekki upp. Mér finnst að menn eigi að hugleiða það líka að það er ekki hægt að horfa fram hjá þeim staðreyndum sem hér ríktu þegar kvótinn var settur á. Það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að menn höfðu alla tíð keypt sér aðild að miðunum með því að fjárfesta í útgerð. Og það hefur ekki breyst því að hvort sem menn afnæmu kvótann af skipunum eða tækju burt tímann sem menn mega vera á miðunum ef við byggjum við sóknareiningakerfi þá mundu menn að sjálfsögðu steypa öllum grundvelli undan útgerðinni. Og það er þetta sem var viðurkennt með því að tengja kvótann við skipin.

Það er reyndar eitt atriði í þessu sambandi sem ætti að vera mönnum til hugleiðingar. Það hefur komið hér upp þráfaldlega mikil gagnrýni á að sjómenn væru neyddir til þess að fjárfesta í kvóta með útgerðunum. Og þess eru sjálfsagt nokkur dæmi og öll vítaverð þar sem slíkt er að sjálfsögðu brot á lögum. En í hverju er brotið fólgið? Brotið er í raun og veru fólgið í því að sjómennirnir eru með þrýstingi neyddir til þess að taka þátt í kaupum á kvótanum án þess að öðlast eignarhlutdeild í honum og verða aðilar að því að eignast andvirði kvótans ef hann er seldur. Það er nákvæmlega þetta --- þeir eiga ekki í kvótanum þótt þeir séu neyddir til þess að taka þátt í þessum viðskiptum. Það er það sem er brot á lögunum.

Með þessum lögum, með frv. sem hér er lagt fram ef að lögum verður, er kveðið á um að það megi ekki færa aflaréttindin af veðsettum skipum nema með samþykki veðhafa. Þessi ráðstöfun verður til þess í sjálfu sér að auka réttaröryggi þeirra sem fjárfesta í sjávarútvegi og lánastofnana. Hér var áðan talað um að þetta yki öryggi lánastofnana en öryggi lánastofnana endurspeglast í öryggi þeirra sem taka lán líka. Ef lánastofnanir líta svo á að viðskipti séu ekki örugg þá bitnar það líka á þeim sem taka lán hjá lánastofnunum þannig að þetta eru bæði hagsmunir lánastofnananna og þeirra er gera út. Og það sem meira er, þetta er alveg sérstakt hagsmunamál smærri útgerða. Vegna þess að stóru útgerðarfyrirtækin sem eiga bæði fjölda skipa og verksmiðjur --- fiskvinnslustöðvar, hafa rýmri tök á að skipta við lánakerfið, bankakerfið, að bjóða upp á veð önnur en skipin, en smæstu útgerðirnar hafa ekki annan kost en þann að bjóða veð í skipunum. Þar af leiðandi skiptir mjög miklu máli að hægt sé að búa þannig um hnútana að fyrir alla aðila sem stunda útgerð geti menn treyst því að grundvellinum sé ekki kippt undan þessum veðsetningum. Því tel ég að þetta frv. sé spor í rétta átt og skynsamleg leið til þess að finna lausn á þessum vanda.

[16:30]

Sú sérkennilega umræða sem hefur orðið hér um kvótann og sameign þjóðarinnar hefur orðið til þess að það upphefjast menn úti í bæ. Raunar þarf ekki að fara út í bæ til þess. Það nægir að líta yfir þingsalinn því þingmenn upphefjast líka eins og hv. 15. þm. Reykv., svo að ég hafi það nú rétt, sem benti á sjálfan sig og sagði: ,,Hver á kvótann? Ég á kvótann.`` Það hafa margir hafist upp í þjóðfélaginu og krafist þess eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bendir réttilega á, að þeir eigi hlutdeild í kvótanum prívat og persónulega og hafa meira að segja látið koma fram þá hugmynd að það ætti að gefa út hlutabréf á hann sem yrðu söluverðmæti eins og hlutabréf eru almennt. En í þessu er nú sá misskilningur að ef þetta er sameign þjóðarinnar, þá er hún ekki séreign hvorki hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar né annarra góðra og gegnra borgara þessa lands.

Það er mjög athyglisvert --- ég minni á það sem ég sagði hér áðan að fjárfestingin í sjávarútveginum hefur alltaf verið forsenda þess að auðlindin væri raunveruleg auðlind, að fiskimiðin væru gerð að auðlind og að einhverjir fengjust til þess að sækja fiskinn, þ.e. sjómennirnir --- að nú er komin upp þriðja tegundin af þeim sem ætla sér hlut. Hluturinn skiptist væntanlega yfirleitt milli útgerðarmanna og sjómanna. En nú er kominn þriðji hópurinn. Í þessum hópi eru m.a. hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, og einhverjir fleiri, ekki síst þeir sem hafa verið að skrifa greinar um þetta nú upp á síðkastið sem ætla sér að komast upp á hlut hjá útgerðinni og hjá sjómönnum, ekki fyrir það að þeir hafi lagt pening í það, hætt sínum fjármunum í að gera út skip. Nei. Ekki fyrir það að þeir ætli að sækja fiskinn á skipunum eins og sjómennirnir gera. Nei, í raun og veru er framlagið ekki neitt. Framlagið á ekki að vera neitt. Þeir ætla sér að sitja heima hjá sér eða í þingstólum sínum og vera upp á hlut og þetta er nokkurt nýmæli.

Ég fullyrði það hér og nú að fiskimiðin eru ekki auðlind nema til séu Íslendingar sem vilja leggja fjármuni sína í útgerð og hætta þeim þar og til séu fiskimenn sem vilja draga fiskinn. Annars eru þessi mið ekki auðlind. Það á að taka tillit til þessarar staðreyndar og það er gert nú til dags. Það var gert á sínum tíma þegar kvótakerfið var sett út. Það er gert með hlutaskiptareglunum og ég legg til að menn hugleiði þetta nú í allri umræðunni. Hinir sómakærustu útgerðarmenn hafa starfað í sínum útvegi áratugum saman og nær oftast í basli vegna þess að með gengisskráningu krónunnar var séð til þess að afkoman í sjávarútveginum var nú ekki mikil því að það þurfti að sjálfsögðu að hafa innflutninginn ódýran. Áratugum saman var gengisskráningu krónunnar hagað þannig að sjávarútvegurinn var rekinn í kringum núllið en kaupmáttur íslensku krónunnar var nógu mikill til þess að hægt væri að flytja inn vörur sem hafði mjög mikil áhrif á kaupmátt almennings.

Það var ekki alltaf verið að mylja undir þá útgerðarmenn sem stunduðu útgerð áratugum saman við þessar aðstæður. Það var meira að segja svo að þegar stíga þurfti stór skref til þess að endurnýja flotann þá var yfirleitt þörf á því að fara í opinbera sjóði til þess að styrkja það því að útgerðin hafði ekki kraft í sér til að gera það af sjálfsdáðum Þessi útgerð var mikið basl en menn voru engu að síður reiðubúnir til að leggja fé sitt og fjármuni í hana og nú er svo komið að þegar þessir ágætu útgerðarmenn sem hafa hingað til verið stétt sem við höfum borið virðingu fyrir verða fyrir aðkasti á götum úti vegna þess að almenningur er farinn að trúa upp á þá að þeir séu þjófar og illmenni. Og hver skyldi lá almenningi að hann trúi því að útgerðarmenn séu þjófar þegar hér standa upp þingmenn og tala um það, ekki í gamni heldur í alvöru, að úthlutun á kvóta til sjómannanna hafi verið þjófnaður aldrarinnar. (ÖS: Til sjómannanna!) Til útgerðarmannanna og margir eru bæði sjómenn og útgerðarmenn, en hv. þm. hefur ekki áttað sig á því.

Ég ætla að gefa þingheimi dæmi um útgerðarmann sem verður ekki nefndur hér með nafni. Hann byrjaði á útgerð sinni 1967 og keypti þá lítinn bát sem var að því að mig minnir 35 tonn. Svo komu aflaleysisár og hann varð að selja bátinn og kaupa sér annan minni. Með miklu basli tókst þessum manni að komast yfir skip sem tryggði honum kvóta þegar kvótinn var settur á og þá átti hann um 400 tonna þorskkvóta og lítils háttar af ýsu og öðrum kvóta eftir því sem hann var settur á. Þessi útgerð hefði ekki gengið á þessum grundvelli þannig að hann keypti sér skip. Hann seldi skipið sitt án kvóta og keypti sér skip með 400 tonna þorskaflakvóta og átti þar af leiðandi 1987 800 tonna þorskkvóta. Núna er þessi þorskkvóti 250 tonn. Hann hafði þá fjárfest í þessum 400 tonnum sem hann bætti við sinn upphaflega kvóta upp á annað hundrað milljónir. Hann varð stórskuldugur við að kaupa þennan kvóta og síðan skárum við hann miskunnarlaust niður ár eftir ár. Við skárum niður fjárfestinguna hans ár eftir ár þannig að hann hafði fjárfest, ekki bara í kvóta, hann hafði fjárfest í niðurskurði. Og hver eru lífsskilyrði þessa manns núna? Þau eru þau að hann selur allan botnfiskkvóta sinn innan ársins og kaupir rækju í staðinn. Þannig tekst honum að halda uppi rekstrarhæfri einingu. Reyndar selur hann svolítið meira af botnfiskheimildum heldur en hann kaupir af rækjunni. Til hvers gerir hann það? Til að stinga peningum í vasann? Nei, hann gerir það til þess að borga niður skuldir fyrirtækisins sem eru miklar og það hefur einkum tekist nú síðustu tvö árin að gera það vegna þess að hagur útgerðarinnar hefur staðið svolítið betur síðustu tvö árin. En hann hefur líka orðið að fjárfesta, með því að selja kvóta, í því að reyna að lappa upp á skipið sem hann keypti kvótann á sem var gamall dallur frá 1967 og er ekki mönnum boðlegur nema með því að fjárfesta í honum.

Þetta er nú ástandið. Þannig nýtir þessi ágæti útgerðarmaður sér aðstæðurnar í þjóðfélaginu, þær reglur sem um þetta gilda og vil ég nú spyrja þingheim: Hversu algengt halda menn að það sé í sjávarútveginum að menn leiki eftir reglunum á þennan hátt og hversu sanngjarnt er það að vera búinn að klína á þessa ágætu útgerðarmenn einhvers konar þjófsnafnbót bæði með greinaskrifum í blöðum og með ræðuhöldum á Alþingi? Ég vil biðja menn að hugleiða þetta og ég vil biðja menn að hugleiða það með Viktori gamla Hugo sem sagði einu sinni: ,,Menn vita ekki alltaf hvað vex upp af því sem þeir sá``. Það er búið að sá miklu fræi hér í þessari umræðu, miklu óánægjufræi og það er búið að hafa hér þung orð og ég held að menn átti sig ekki fyllilega á því, þar á meðal hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hvernig menn skera upp með þessum sáðmannsháttum.