Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:41:21 (2948)

1997-01-30 16:41:21# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:41]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki gert að því þótt hv. þm. Ágúst Einarsson skorti skilning á þeirri hlið málsins sem ég hef verið að draga hér fram. Ég gerði mér ekki vonir um það miðað við hans málflutning í þinginu hingað til.

Það sem gerðist 1984 var að rétturinn til að veiða og skipið var aðskilinn. Að sjálfsögðu er það hárrétt sem ég sagði áðan að frá upphafi Íslandsbyggðar hefur það alltaf kostað að nytja þessi mið. Það sem gerðist 1984 var það að menn ákváðu að takmarka þennan aðgang og það var ákveðið að tengja hann skipunum með eðlilegum hætti. Það varð engin eignatilfærsla þá. Svo ég taki dæmi af þessum ágæta útgerðarmanni sem ég minntist á áðan, þá fékk hann náðarsamlegast heimild til þess að draga úr sjó nákvæmlega það sem hann hafði dregið úr sjó þrjú árin þar á undan. Aflareynslan var þar af leiðandi grundvöllur þessarar veiðiheimildar. Það sem menn þurfa að gera sér grein fyrir er einfaldlega þetta: Þegar kvótinn var settur þá voru skipin gerð verðlaus. Grundvellinum var kippt undan fjárfestingunni í sjávarútveginum ef kvótinn var ekki bundinn við skipið.

Það er eins nú að ef skipin missa réttindi til þess að fara á miðin, þá eru þau verðlaus eign. Það liggur í hlutarins eðli. Ég vil hins vegar ekki neita því að fram hafa komið mjög margir agnúar á þessu fiskveiðistjórnarkerfi og það eitt að takmörkunin á auðlindinni hefur breytt verðmætasköpuninni er mikið vandamál. En ég sé ekki að þessi umræða sem hér hefur verið, og þá ekki síst hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni, hafi varpað ljósi á eðli málsins né uppruna kvótakerfisins. Þessi umræða er alltaf uppi í skýjunum og tekur aldrei tillit til sagnfræðinnar í þessu máli.