Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:49:22 (2952)

1997-01-30 16:49:22# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:49]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil mjög vel að hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur, 19. þm. Reykv., hafi ofboðið málflutningur minn. Það er nú varla við öðru að búast. Mér hefur líka ofboðið málflutningur hennar og sá skilningur sem hún hefur lagt í þá aðstöðu sem er gert er út við á Íslandi. Ég geri mér ekki vonir um að geta komið henni á rétt spor í þeim efnum, því fer víðs fjarri.

Hér var minnst á nokkur atriði sem rétt er að víkja að. Hv. þm. talar um að sjómennirnir ættu væntanlega að eiga eitthvað í kvótanum líka fyrst útgerðarmennirnir eiga það. En það er nú einu sinni svo að sjómennirnir komast ekki á sjó nema menn séu viljugir til þess að fjárfesta í skipum. Og eins og ég gat um áðan þá er það orðið þannig að fjárfesting í atvinnutækjum sjávarútvegsins er alltaf að verða dýrari og dýrari. Hún er meira að segja orðin svo dýr nú að farið er að tala um það sem hneyksli ef menn kaupa sér nýjan togara vegna þess að þeir eru svo dýrir. Það er í sjálfu sér ekki verið að tala um að það sé hneyksli að þessi skip séu þannig útbúin að þau eru boðlegir vinnustaðir núna og að slys á sjómönnum eru ekki eins tíð og þau voru áður. Aðstæður sem íslenskir sjómenn bjuggu við á árum áður voru náttúrlega gjörsamlega óviðunandi enda hvergi eins mikil slysatíðni og í þessari atvinnugrein. En núna er hins vegar betri tíð. Það er boðið upp á, einkum og sér í lagi á stærri skipunum, mjög viðunandi aðstæður. Þetta kostar að sjálfsögðu mikla peninga. Þannig að fjárfesting í útgerð er mikið fjárhagsspursmál. Þar af leiðandi skiptir máli að til þess að sjómennirnir geti komist á sjó og búið við mannsæmandi aðstæður að mikla fjárfestingu þarf. Og það er þessi fjárfesting sem er og hefur alltaf verið skilyrði fyrir því að menn geti gert fiskimiðin að auðlind. Ég sé að ég hef ekki tíma til að koma inn annað atriði sem nefnt var en mun víkja að því í seinna svari mínu.