Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 16:55:17 (2955)

1997-01-30 16:55:17# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[16:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér þykir miður að hv. þm. Tómas Ingi Olrich skuli þurfa að hverfa héðan af vettvangi eftir að hafa a.m.k ...

(Forseti (GÁS): Gefið ræðumanni hljóð.)

Herra forseti. Ég hygg að það sé allt í lagi þó hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason taki til máls, jafnvel þó hann geri það bara úr sæti sínu, vegna þess að við höfum ekki heyrt mikið til Framsfl. illu heilli hér í dag. Þannig að ég get vel (Gripið fram í.) þagað á meðan hv. þm. veitir nokkrum athugasemdum til mín.

Herra forseti. Ég gat þess í upphafi máls míns að það væri miður að hv. þm. Tómas Ingi Olrich þyrfti að hverfa af vettvangi og fara norður í land en við því er ekkert að segja. Hann lagði hér inn efnivið í ansi góða umræðu sem hefði getað staðið lengi dags. Ég tel þó að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hafa svarað honum hárrétt í andsvari sínu áðan. Staðreyndin er auðvitað sú að það er með engu móti hægt að koma hér eins og hv. þm. gerði og tala um að útgerðarmenn á Íslandi sé einhver sérstakur hópur smælingja sem menn megi ekki tala harkalega um og menn megi ekki gagnrýna. Útgerðarmenn eru forréttindastétt, örfámennur hópur forréttindaaðals sem hefur í krafti gallaðs kerfis og fyrir tilstyrk stjórnvalda tekist að sölsa undir sig gríðarleg verðmæti. Það er ekki nema von að menn taki stórt upp í sig og þeim hitni í hamsi þegar þeir horfa upp á þessa stærstu eignatilfærslu aldarinnar sem er að verða einmitt þessi árin, þessi missirin. Og það sem er hér undir í dag er auðvitað spurningin: Stuðlar frv. sem við erum að ræða hérna að því að þessi eignatilfærsla haldi áfram og henni verði ekki við snúið, hvort hægt verði að halda til baka eða ekki? Um það snýst þetta mál að verulegu leyti a.m.k. frá þeim sjónarhóli sem ég stend þegar ég lít yfir það. En vegna þess að menn hafa átalið þingmenn, m.a. þann sem hér stendur, fyrir að hafa notað nokkuð stór orð í umræðu um þetta þá er vert að rifja upp að það er ekki í fyrsta skipti sem það hefur gerst úr þessum ræðustóli, hvorki af vörum þessa þingmanns né annarra. Og ef hv. sjálfstæðisþingmönnum hér á suðvesturhorninu eða norðan lands bregður í brún við að heyra slík ummæli, þá legg ég til að þeir lesi t.d. leiðara og greinar sem af og til birtast í blöðum sjálfstæðismanna á Vestfjörðum. Ég hef nefnilega sjaldan séð menn kveða jafnfast og vasklega að orði um þessi mál og einmitt þar.

Herra forseti. Menn hafa velt því fyrir sér hvort frv. sem hérna er undir takmarki aflaheimildir og hvort það eigi að taka afstöðu til þess út frá því eða ekki. Það skiptir litlu máli fyrir mig. Það sem ég hef reynt að glöggva mig á undir þessum mörgu ræðum sem fluttar hafa verið í dag er aðallega tvennt. Í fyrsta lagi: Felur frv. í sér að aflaheimildir séu veðsettar? Og í annan stað: Er nauðsyn á því að frv. komi fram?

Eftir því sem umræðunni vatt fram myndaði ég mér ákveðna skoðun á fyrra atriðinu og setti hana fram í andsvari við hv. þm. Sturlu Böðvarsson. Þar var það kjarninn í minni athugasemd að frv. leiddi til þess að aflaheimildir væru veðsettar. Hv. þm. Sturla Böðvarsson, eins og þeir sem voru viðstaddir umræðuna tóku eftir, sagði að sá þingmaður sem hérna stæði skildi frv. alveg rétt. Með öðrum orðum gat ég ekki séð annað en að hv. þm. væri þeirrar skoðunar að skilningur minn væri réttur, þ.e. að aflaheimildir væru veðsetjanlegar samkvæmt frv. Nú er það auðvitað svo að annar þingmaður stjórnarliðsins, hv. þm. Kristján Pálsson, hefur með miklu ítarlegri og rökfastari hætti heldur en ég sýnt fram á þetta hérna áður í dag. Með öðrum orðum: Fyrir mér liggur svarið fyrir varðandi fyrra atriðið. Aflaheimildir eru veðsetjanlegar. Það er þess vegna sem ég hef í dag saknað mjög að sjá nánast enga framsóknarmenn við umræðuna. Við skulum ekki gleyma því að fjórir eða fimm framsóknarmenn fóru mikinn í fjölmiðlum og lýstu því yfir að fyrr skyldu þeir kaldir liggja en yfir þá yrði gengið með þetta frv. Þar á meðal voru t.d. hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sem hér er nú staddur og getur væntanlega skýrt sína afstöðu. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hafði t.d. þetta að segja í viðtali við Alþýðublaðið miðvikudaginn 4. des. þegar niðurstaða var komin í deilu stjórnvalda, með leyfi hæstv. forseta:

[17:00]

,,Það er búið að gera miklar breytingar á frumvarpinu og við erum enn að ræða og velta því fyrir okkur. Í hjarta mínu er ég enn ekki alveg sannfærður en mér finnst frv. hafa breyst mikið til batnaðar.``

Hv. þm. var í hópi þeirra sem kváðust ekki geta fallist á það að aflaheimildir væru veðsettar. Nú er það alveg ljóst, eins og hefur komið fram í máli þessara tveggja stjórnarliða sem ég drap á áðan í máli mínu, að þeir telja að hér sé um veðsetningu að ræða. Ég tel óhjákvæmilegt að hv. þm. Ísólfur Gylfi skýri hvað olli því, hvað reið baggamuninn í því að hann öðlaðist sannfæringu í málinu og að hann er þá væntanlega þeirrar skoðunar að ekki sé um veðsetningu að ræða.

Ég tel líka að það hefði verið skemmtilegra a.m.k. að aðrir þingmenn Framsfl. eins og hv. þm. Magnús Stefánsson væru hérna líka. Hv. þm. sagði í sama blaði, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég hef verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að veðsetja kvóta.`` Ég spyr því þennan hv. þm. ef hann heyrir mál mitt núna: Getur hann sýnt mér fram á með rökum að hér sé ekki um veðsetningu að ræða? Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hafði líka svipuð rök uppi en er illu heilli erlendis, en þrátt fyrir að fylgdarsveinn hans á ferðalagi erlendis sé hv. þm. Hjálmar Árnason og geti þar af leiðandi ekki svarað, þá get ég ekki komist hjá því en drepa lítillega á þær hástemmdu yfirlýsingar sem hv. þm. Hjálmar Árnason hafði uppi í þessu máli. Hann sagði í fyrsta lagi að ef kvótinn væri veðsettur væri verið að brjóta niður þá þjóðareign sem lögin segja að felist í sameign okkar á miðunum. Hann sagði jafnframt að með því að heimila veðsetningu væri verið að festa kvótaeignina, ekki bara við ákveðna einstaklinga heldur ákveðnar útgerðir. Hann sagði í þriðja lagi að með þessu væri verið að búa til hefð til eignarréttar sem mundi leiða til þess að tiltekinn hópur manna mundi um síðir gera tilkall til þessarar eignar. Í fjórða lagi var það ályktunin sem hv. þm. Hjálmar Árnason dró af því ef kvóti yrði veðsetjanlegur, þá væri búið að lögfesta kvótabraskið. Ég spyr: Hvar er þessi svinna sveit framsóknarmanna sem hefur haft uppi stóryrtar yfirlýsingar? Af hverju kemur hún ekki hingað og skýrir mál sitt, skýrir sinnaskiptin og skýrir fyrir okkur hvernig á því stendur að þessir menn hverfa úr þingsölum þegar við erum að ræða þetta? Því miður verður það að segjast að það gerist allt of oft að Framsfl. og hv. þm. hans hafa uppi yfirlýsingar fjarri þingsölum sem eru víðs fjarri stefnu ríkisstjórnarinnar, víðs fjarri því sem hæstv. sjútvrh. hefur uppi. En þegar hingað er komið sjást þessir þingmenn ekki þegar við ræðum nákvæmlega þessi mál. Það er sama hvort við ræðum um smábátaflotann, um að færa togarana út fyrir tilteknar dýptarlínur, um hlutfallið sem bátaflotinn átti að fá. Þegar mál þessi koma hingað til umræðu gufa þessir þingmenn upp og sumir þeirra eru þó þannig vaxnir að það þarf talsvert mikið að ganga á til að þeir gufi upp.

Herra forseti. Ég segi þetta vegna þess að mér finnst ekki heiðarlegt af þeim mönnum sem fjarri þingsölum fara mikinn og lýsa yfir mjög afdráttarlausum skoðunum sem ganga í berhögg við yfirlýstan vilja stjórnarinnar er þeir þegja þunnu hljóði þegar til stykkisins kemur í þessum sölum. Þannig eiga menn ekki að vinna.

Herra forseti. Hv. þm. Framsfl., Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir, höfðu líka mjög skeleggar yfirlýsingar uppi í þessu máli en þau mega þó eiga það að þau komu hér í dag og stóðu fyrir sínu máli. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hversu vel sú málsvörn gekk. Mér þótti hún ekki góð en menn komu þó hér og stóðu fyrir málinu og eins og hv. þm. Guðni Ágústsson sem svaraði spurningum sem til hans var beint. Það var reyndar hv. þm. Guðni Ágústsson sem sagði að aldrei skyldi óveidda fiska í sjónum veðsetja og það var einmitt í þeirri sömu ræðu sem hann sagði:

  • Og því geng ég fár og fölur
  • með framandi jörð við il.
  • Það vex eitt blóm fyrir vestan
  • og veit ekki, að ég er til.
  • Ég verð að segja að þegar kemur að því að berjast gegn veðsetningum og aflaheimildum, þá er hv. þm. Guðni Ágústsson eins og blómið fyrir vestan, hann er ekki til, hann er rótslitinn. Hann hefur skipt um skoðun sem er óvanalegt. En hann hefur þó komið og gert tilraun til þess að verjast í málinu. Vörnin var ekki góð.

    Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir lét þess getið ótilkvödd, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum í fjölmiðlum að hún hefði gerbreytt stefnu hæstv. sjútvrh. Hún hefði unnið sigur í málinu. Hún hefði leitt til þess að inn í þetta frv. væri komin ákveðin framsetning sem gerði það að verkum að ekki væri um það að ræða að aflaheimildir væru veðsettar.

    Um þessar breytingar hefur einn þingmaður fjallað ítarlega í dag. Það var hv. þm. Kristján Pálsson. Ræða hans fjallaði að helmingi til um þær breytingar sem frv. tók í meðförum stjórnarliðanna meðan á þessari togstreitu stóð. Vegna þess að Framsfl. sagði: Við höfðum sigur í málinu. Vegna þess að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði: Ég leiddi til þess að Framsfl. stendur uppi sem sigurvegari í deilunni við hæstv. sjútvrh., þá er nauðsynlegt að rifja það ítarlega upp að niðurstaða hv. þm. Kristjáns Pálssonar varð sú að með þessum breytingum sem Framsfl. gumar af væri fundin eina raunhæfa leiðin til að hægt væri að veðsetja kvóta. Með öðrum orðum var það Framsfl. og íhlutun hans í málinu sem leiddi til þess að leið fannst sem hægt var að setja fram þar sem aflaheimildir væru veðsettar. Ef Framsfl. hefði þagað þunnu hljóði, ég gagnálykta út frá því sem hv. þm. Kristján Pálsson segir, hefði þessi leið ekki fundist. Þá væri það ekki hægt og hæstv. sjútvrh. væri enn að glíma við það mikla Herkúlesarverkefni að finna þessa leið sem Framsfl. montar sig af að hafa fundið. Með öðrum orðum, það verður dálítið erfitt fyrir hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og Hjálmar Árnason þegar þau ganga næst í slaginn á Suðurnesjum og þurfa að standa fyrir sínu máli, þurfa að standa frammi fyrir þeim sem ásaka stjórnarliðið og aðra um að hafa átt þátt í því að færa kvótann úr þjóðareign, úr sameigninni yfir á hendur mjög fárra. Þá standa þau frammi fyrir því að úr stjórnarliðinu komu rökföstustu athugasemdirnar sem leiddu til þessarar niðurstöðu, að það er Framsfl. sem hefur gert það mögulegt að hægt er að veðsetja kvótann.

    Seinni spurningin sem ég reyndi að velta fyrir mér meðan ég var að hlusta á ræðurnar í dag var: Er þetta nauðsynlegt? Mér fannst ræður hæstv. sjútvrh. að mörgu leyti góðar. Mér fannst hæstv. sjútvrh. hafa ýmislegt til síns máls. Hæstv. sjútvrh. sagði að nauðsynlegt væri að eyða réttaróvissu og hann sagði: Ef við tökum ekki af skarið í þessum efnum þá hefði það áhrif á lánastarfsemi bankanna. Það gæti leitt til misréttis. Það misrétti væri þrenns konar.

    Í fyrsta lagi væri það annars vegar misrétti sem sjávarútvegurinn sætti gagnvart öðrum atvinnugreinum.

    Í öðru lagi kallaði hann það líka misrétti dreifbýlisins gagnvart þéttbýlinu og ég átti erfiðara með að skilja það.

    Í þriðja lagi væri það misrétti sem smærri fyrirtæki sættu gagnvart þeim sem stærri eru.

    Ef um misrétti er að ræða milli atvinnugreina fellst ég á fyrir mitt leyti að það hlýtur að leiða til m.a. vaxtamunar. Það hlýtur að leiða til þess að greinin mundi um síðir standa uppi með verri lánakjör og þar af leiðandi væru samkeppnisskilyrði hennar verri. Þetta eru sterk rök hjá hæstv. sjútvrh. En lítum á forsendur þess að hann heldur þessu fram. Það er dómur sem fallinn er í tiltölulega veigalitlu máli þar sem hagsmunirnir voru svo litlir að ekki var einu sinni talið nauðsynlegt að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Ég segi, herra forseti: Þetta er að mínu mati ekki nægilegt til að hægt sé að halda því fram að það sé réttaróvissa. Ef réttaróvissan er farin að hafa þau áhrif á sjávarútveginn sem hæstv. sjútvrh. sagði, hver mundi fyrst finna það? Greinin sjálf. Og greinin sjálf mundi koma til þingsins, til hæstv. sjútvrh. og óska eftir að þessi samkeppnisskilyrði yrðu leiðrétt. En það hefur komið fram, ég hygg í máli hæstv. ráðherra, alla vega einhverra hér í dag, að engin slík ósk hefur birst. Hæstv. sjútvrh. sagði hins vegar og það hefur verið ítrekað af öðrum stjórnarliða að ekki væri að vænta kollsteypu innan greinarinnar þó þetta yrði ekki samþykkt. Hvers vegna dreg ég mig að þessari niðurstöðu? Vegna þess að í bestu ræðunni sem hér hefur verið flutt í dag, ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar, var farið mjög yfirvegað yfir þessi mál. Niðurstaða þingmannsins var sú að réttast væri að bíða með málið. Af hverju vildi hann það? Hann vildi að beðið væri með málið vegna þess að það miklar deilur væru uppi um sjávarútveginn, einkum um fiskveiðistjórnkerfið, að óæskilegt væri að koma fram með mál sem leiddu til enn meiri óróleika í kringum kerfið. Það er auðvitað alveg ljóst að þegar hálf þjóðin er þeirrar skoðunar, eins og hún virðist vera, að frv. sem hér liggur fyrir verði til þess að treysta séreign hinna fáu á kvótanum, á miðunum, þá er það auðvitað eldsneyti, það er olía á þetta bál. Að því leyti til hefur hv. þm. Ágúst Einarsson alveg rétt fyrir sér.

    Helstu rökin sem hæstv. sjútvrh. gæti teflt gegn þessu væru þau að þessi réttaróvissa sem hann hefur bent á væri að baka greininni kostnað. En ég tel að ég hafi sýnt fram á það í máli mínu að svo er ekki. Hæstv. sjútvrh. segir sjálfur að þetta muni ekki valda kollsteypu og það hefur komið fram að greinin hefur ekki orðið vör við þetta í þeim mæli að henni séu búin verri skilyrði en öðrum greinum. Þess vegna hnígur mitt mál að þeirri niðurstöðu að hv. þm. Ágúst Einarsson hafi rétt fyrir sér þegar hann segir: Það er svigrúm til að bíða með þetta mál. Ég tel þess vegna, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. ætti að taka mið af því og ef hann raunverulega vill lægja öldurnar í kringum stjórnkerfi fiskveiða ætti hann ekki að ýta þessu máli svo fast fram sem hann gerir núna. Hann ætti auðvitað ekki að reyna að koma inn í þingið með mál sem eru líkleg til þess að glæða ófrið í kringum stjórnkerfið. Það er nóg af slíku. En þetta mál er fallið til þess, herra forseti.