Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 17:13:13 (2956)

1997-01-30 17:13:13# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[17:13]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson taldi í ræðu sinni að útgerðarmenn hefðu ekki orðið varir við þá réttaróvissu sem hér hefur verið til umræðu. Ég veit hins vegar til þess að útgerðarmenn telja sig hafa orðið fyrir réttaróvissu. Ég tel raunar nokkuð ljóst að ef þessi réttaróvissa verður ríkjandi um lengri tíma muni það fyrst og fremst koma niður á hinum smærri útgerðum, einstaklingsútgerðunum. En hins vegar munu þeir stóru, sægreifarnir sem svo eru kallaðir, og stóru útgerðarfyrirtækin geta bjargað sér og sínum málum einfaldlega með því að leita til fjármagnsmarkaðarins og gefa út annaðhvort hlutabréf eða skuldabréf án þess að þurfa að leita til lánastofnana.

Ég veit hins vegar, herra forseti, að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur borið hag minni útgerða fyrir brjósti og því teldi ég að það væri meira í samræmi við hans málflutning í þinginu að undanförnu að hann styddi þetta frv. heldur en hann mælti gegn því.