Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 17:14:35 (2957)

1997-01-30 17:14:35# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[17:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er einungis að reyna að ræða málefnalega um þetta. Ég er búinn að sitja hér í allan dag og hlusta á allar ræðurnar og mér hefur fundist margar góðar. Það sem ég sagði áðan var að margt væri til í röksemdum hæstv. sjútvrh. En ég færði rök að því að sú skoðun sem hv. þm. Ágúst Einarsson setti fram ætti rétt á sér. Þessi skoðun hv. þm. var sú að það væri ekkert svo knýjandi að nauðsynlegt væri að samþykkja þetta núna.

Það hefur ekkert komið fram í umræðunum í dag fyrr en í þessari athugasemd hv. þm. Árna M. Mathiesens. Ég hef hér einhvers staðar fyrir framan mig viðtal við Jónas Haraldsson, lögfræðing Landssambands ísl. útvegsmanna, þar sem hann segir að þetta breyti engu fyrir þá. Þetta tryggir bara betur hag bankanna. Þetta getur vel verið rétt sem hv. þm. Árni M. Mathiesen sagði, en hann sagði að hann teldi að þetta gæti orðið með þeim hætti sem hann lýsti. Það getur vel verið. Bíðum eftir því, látum það koma fram og þá skulum við taka ákvörðun um hvernig við tökum á því. En réttaróvissan sem sögð er vera til staðar núna er það lítilvæg, tel ég, að hún hefur t.d. ekki komið fram í því að sjávarútvegurinn eigi eitthvað erfiðara með að afla sér fjármagns. Þvert á móti tel ég að fram undan séu tímar sem gera það að verkum að sjávarútvegurinn vegna batnandi árferðis, vegna hagræðis í greininni, vegna meira fjármagns í umferð, veltiárs, eigi miklu auðveldara með að verða sér úti um fjármagn en hann hefur átt á undanförnum árum.