Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 17:17:24 (2960)

1997-01-30 17:17:24# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[17:17]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ef það er mat hv. 15. þm. Reykv. að sá dómur sem fyrir liggur og vitnað hefur verið í breyti engu um réttarstöðu og valdi ekki réttaróvissu þá er staðan sú að heimilt er að veðsetja aflaheimildir. Er það raunverulega ósk hv. þm.? Ég hef ekki skilið málflutning hans á þann veg.

En til þess að hv. þm. skilji betur hvaða réttaróvissa er hér uppi, þá ætla ég að vitna hér, með leyfi forseta, í bréf Seðlabanka Íslands sem hann hefur skrifað allshn. vegna þessarar óvissu. Bréfið er undirritað af tveimur bankastjórum, Birgi Ísleifi Gunnarssyni og Steingrími Hermannssyni, í maí í vor og eftir að dómurinn lá fyrir. Í bréfinu segir svo:

,,Sú óvissa sem er til staðar um gildi greiðslutrygginga með veði í fiskiskipi með aflaheimild, hlýtur að leiða til endurskoðunar á vinnubrögðum lánastofnana að því er varðar lánveitingar. Mun bankaeftirlit Seðlabankans vekja athygli stjórnenda lánastofnana á þeirri áhættu sem slíkum lánveitingum er samfara við núverandi aðstæður og hvetja til ýtrustu varfærni í þeim efnum, setji löggjafinn ekki skýrar reglur, sem heimila veðsetningu aflaheimilda (aflahlutdeildar) skips.``

Með öðrum orðum, Seðlabankinn er búinn að lýsa því yfir að hann muni hvetja lánastofnanir til þess að draga úr lánveitingum til sjávarútvegsins verði réttaróvissunni ekki eytt. Það er það sem liggur fyrir í þessu máli. Og þeir sem vilja ekki eyða réttaróvissunni eru að óska eftir því að upp komi sú staða sem Seðlabankinn er að hóta hér, að bankarnir verði að draga úr lánveitingum til sjávarútvegsins. Og ég vil gjarnan að þeir þingmenn komi hingað og segi að það sé markmið þeirra með þessari umfjöllun að sú staða komi upp gagnvart sjávarútveginum.