Samningsveð

Fimmtudaginn 30. janúar 1997, kl. 17:20:46 (2962)

1997-01-30 17:20:46# 121. lþ. 59.2 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[17:20]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að ef Alþingi eyðir ekki réttaróvissunni, þá verða lánastofnanir að bregðast svona við og afleiðingarnar verða augljósar fyrir sjávarútveginn í landinu og veikja stöðu hans. Það er þegar farið að örla á mjög óæskilegri þróun í þessu efni. Þess eru dæmi að bankar séu farnir að stofna eignarhaldsfélög sem eiga skip sem þau aftur leigja útgerðarfyrirtækjum vegna þess að réttaróvissa er um þessi efni og ekki hægt að hafa lánveitingar eðlilegar. Ég er alveg sannfærður um að fyrirkomulag af því tagi er ekki það sem hv. 15. þm. Reykv. óskar sér. Og ég er alveg sannfærður um að hann vill eyða slíkri óvissu og koma á slíku fyrirkomulagi að lánveitingar geti verið eðlilegar í þessari atvinnugrein eins og öðrum.