Ákvörðun um álbræðslu á Grundartanga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:17:16 (2989)

1997-02-03 15:17:16# 121. lþ. 60.2 fundur 170#B ákvörðun um álbræðslu á Grundartanga# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:17]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Á laugardaginn var voru stofnuð fjölmenn samtök íbúa við Hvalfjörð, í Kjós og í fleiri sveitarfélögum sem nefna sig Sól. Þau skora á ríkisstjórnina m.a. að endurskoða stóriðjustefnu sína og, eins og segir í ályktun fundarins: ,,sem iðnrn. og Landsvirkjun reka með yfirgangi og metnaðarleysi gagnvart umhverfisvernd í landinu.``

Hæstv. iðnrh. var spurður um það í gær í sjónvarpi hvort hann gæti ekki tekið undir með þessum samtökum að til greina komi að færa það stóriðjuver, sem ráðgert er að rísi á Grundartanga, á annan stað. Ráðherrann tók alveg fyrir það í svari sínu í sjónvarpinu að það væri hægt, það kæmi sem sagt ekki til álita. Þetta segir hæstv. ráðherra á sama tíma og til athugunar eru hjá opinberum stofnunum eins og Hollustuvernd ríkisins um 70 athugasemdir við starfsleyfi þessa fyrirtækis og þrátt fyrir þá staðreynd að stjórnarmeirihlutinn í umhvn. Alþingis hefur að eigin frumkvæði tekið þetta mál á dagskrá og ráðgerir að fjalla um það í mjög víðu samhengi.

Er þetta bara meiningarleysa? Er þetta markleysa? Ætlar hæstv. iðnrh. ekki að taka mark á því ef athugun á starfsleyfi og fleiri þáttum leiðir í ljós að umhverfi og aðstæðum við Hvalfjörð sé misboðið og ætlar hann ekki að taka neitt mark á hugsanlegum niðurstöðum umhvn. þingsins, athugun sem stjórnarliðar í umhvn. hafa haft frumkvæði að því að taka á dagskrá og væntanlega mun liggja fyrir á þessu þingi?