Ákvörðun um álbræðslu á Grundartanga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:22:03 (2991)

1997-02-03 15:22:03# 121. lþ. 60.2 fundur 170#B ákvörðun um álbræðslu á Grundartanga# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:22]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er ekki með opnum huga sem hæstv. iðnrh. skoðar þetta mál. Hann virðist ráðinn í að hafa fjöldamótmæli við þessar fyrirætlanir að engu. Hann tekur ekki mark á aðvörunarorðum Bændasamtakanna að óráðsía sé að fara að reisa álbræðslu sem þessa í landbúnaðarhéraði. Hann treystir því að hæstv. umhvrh. muni úrskurða varðandi starfsleyfi með hliðstæðum hætti og hann gerði um mat á umhverfisáhrifum þar sem ráðherrann sló niður með valdi sínu úrskurði skipulagsstjóra í málinu. Hæstv. iðnrh. ætlar að hvetja hæstv. umhvrh. til að ganga eins fram, en það vill nú svo til að það er ekki lengur hæstv. umhvrh. einn sem úrskurðar í því máli eftir að hann hefur neyðst til þess að breyta um reglugerð, til að kalla til baka reglugerð sem hann setti sl. sumar og setja nýja þar sem sérstök úrskurðarnefnd kemur að málinu til að fjalla um athugasemdir. Og ég tel að hæstv. iðnrh. eigi að athuga sinn gang betur áður en hann endurtekur það að hann hafi að engu þær athugasemdir og fjöldamótmæli sem fram hafa komið í þessu máli.