Niðurskurður á fjárveitingum til sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:25:27 (2995)

1997-02-03 15:25:27# 121. lþ. 60.2 fundur 171#B niðurskurður á fjárveitingum til sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), KHG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:25]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um áformaðan niðurskurð á fjárveitingum til sjúkrahúsa á landsbyggðinni, en eins og kunnugt er hefur verið áformað að skera niður fjárveitingar til tiltekinna landsbyggðarsjúkrahúsa um 160 millj. kr. á næstu þremur árum. Ég hef hins vegar orðið var við að það er ekki einn skilningur uppi um hversu háa fjárhæð á að spara samtals á næstu þremur árum. Ég get nefnt sem dæmi fréttir Ríkisútvarpsins 29. janúar sl., kvöldfréttir, þar sem bersýnilega kom fram sá skilningur að um væri að ræða 160 millj. kr. samtals á þremur árum. Ég get einnig vitnað í aðra fréttatíma því til stuðnings.

Nú hef ég séð gögn eða skýrslu þeirrar nefndar sem er með tillögur í málinu og þar kemur annað fram. Þar má ráða að niðurskurðurinn eigi að vera á næstu þremur árum samtals 340 millj. kr. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrrh.: Hvað er áformaður niðurskurður mikill samkvæmt tillögum ráðuneytisins? Er hann 160 millj. kr. samtals á næstu þremur árum eða er hann 340 millj. kr.? Það skiptir miklu hvor skilningurinn er uppi. Fyrir Sjúkrahúsið á Seyðisfirði þýðir það t.d. að því verði gert að spara 45 millj. kr. á næstu þremur árum í stað 21 millj. kr. en 45 millj. kr. er helmingurinn af ársfjárveitingu til þess sjúkrahúss. Á Patreksfirði þýðir þetta að sjúkrahúsinu yrði gert að spara 26 millj. í stað 12.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra af því að kynnt er í fjárlagafrv. að þetta sé aðeins fyrsti liður í áformaðri hagræðingu þessara spítala: Hvað eru áformin stór hvað varðar frekari sparnað umfram þessar 160 millj. kr.?