Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:53:37 (3007)

1997-02-03 15:53:37# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:53]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Launastefna ríkisstjórnarinnar er sú að kaupmáttur í landinu megi hækka sem mest eins og best er kostur. Það er meginstefna ríkisstjórnarinnar. Vonandi er það líka stefna þingmannsins sem talaði áðan og þingheims alls, að í kjarasamningunum náist það fram að kaupmáttur landsmanna geti hækkað eins mikið og frekast er kostur. Þetta er meginstefnan sem við eigum að sameinast um. Það var gaman að heyra ræðu hv. þm. sem var mjög hefðbundin ræða. Það er alltaf gaman fyrir íhaldsmann eins og mig að hlusta svona á gamlar og góðar hefðbundnar ræður sem hafa verið haldnar hér á landi í svona 40--50 ár, en menn eru nokkurn veginn hættir að halda slíkar ræður annars staðar.

Hv. þm. ræddi nokkuð um orð mín í viðtali í Morgunblaðinu og fór þar rangt með, ábyggilega vísvitandi því að hv. þm. er bærilega vel læs. Hv. þm. sagði að ég hefði sagt þar að launamenn væru að tala sig inn í verkfall. Sagði ég það, hv. þm.? Nei, nei. Ég sagði það ekki, hv. þm. Ég sagði að ég óttaðist að aðilar á vinnumarkaði væru að tala sig inn í verkfall. Af hverju kaus þingmaðurinn að hafa þetta ekki rétt eftir? Til þess að gera mig tortryggilegan í augum launamanna? Eða er einhver önnur ástæða? En þetta var það sem ég sagði. Það er afar þýðingarmikið að hv. þm. hafi þetta rétt eftir.

Hv. þm. vitnar til þess að ég hafi rakið það og þær tölur liggja fyrir að kaupmáttur hefði aukist ... (RG: Menn séu að tala sig inn í verkfall, menn séu að gera það.) Það eru bara menn sem eru í kjaraviðræðum. Dýrin blessuð fá ekki að komast þar að, hv. þm. veit það. En jafnframt vitnar hann til þess og fer rangt með varðandi kaupmáttaraukningu. Ég sagði þar að kaupmáttaraukning hefði átt sér stað á árunum 1994--1996 og síðan bætti ég við hvað menn gætu áætlað á árinu 1997. Og til að sýna fram á að ég hefði rangt fyrir mér í þessum efnum, þá vitnar hv. þm. í tölur sem birtar eru í blaði Dagsbrúnar frá 1993--1995 sem alls ekki var rætt af minni hálfu. Hvernig getur hv. þm. beitt vinnubrögðum af þessu tagi? Hvernig ímyndar hv. þm. sér að slík vinnubrögð séu til þess fallin að skapa málefnalegar umræður sem gagnast mættu launamönnum? Slíkar talnameðferðir eru ekki til þess fallnar að gagnast launamönnum í þeim viðræðum sem nú standa yfir.

Hv. þm. sagði að launþegar í landinu hefðu orðið að taka á sig miklar fórnir til þess að verðbólga yrði lág, atvinnuleysi minnkaði og vextir lækkuðu. Þeir hefðu fórnað sér og þess vegna samþykkt þjóðarsáttarsamninga æ ofan í æ. Getur það verið að hv. þm. telji að það væri betra að fara einhverja aðra leið fyrir launþega í landinu? Leið sem ekki hefði skilað kaupmáttaraukningu og hefði um leið ekki leitt til þess að verðbólga minnkaði og atvinnuleysi minnkaði og vextir lækkuðu, þannig að launþegar voru að semja fyrir sjálfa sig og í þágu sjálfra sín og engra annarra. Það er ekki fórn að ná slíkum árangri. Ef launþegar hefðu hins vegar farið þá leið sem sumir töluðu fyrir hér á árum áður, farið gömlu leiðina, leið 30--40% kauphækkana, leið óðaverðbólgunnar, þá hefði það þýtt að vextir hefðu ekki lækkað, að verðbólga hefði ekki minnkað og að kaupmáttur hefði fallið enn þá meir en ella. Þess vegna var þetta sameiginlegur ávinningur allra sem að málinu koma og þannig á auðvitað að tala um málið og ekki öðruvísi.

Sem betur fer er það nú svo að þekkt er og menn vita það að kaupmáttur hefur verið að aukast frá 1994 og til þessa dags. Við lágum ekkert á því í síðustu ríkisstjórn að kaupmáttur hefði þá staðið í stað eða minnkað, reyndar ekki eins mikið og í ríkisstjórninni 1988--1991 þegar kaupmáttur hrundi. En hann byrjaði ekki að aukast í tíð okkar ríkisstjórnar, ekki fyrr en 1994 þegar árangur efnahagsaðgerða og markvissrar stefnu ríkisstjórnarinnar fór að bera árangur eða koma í ljós. Og hið sama hefur gerst núna. Þessi árangur heldur áfram og er viðvarandi og þann árangur má ekki skemma. Við erum ekki að stuðla að því að sá árangur skemmist. Við viljum auðvitað að kaupmáttur launafólks í landinu aukist og hann þarf að aukast. Við vitum öll að hann þarf að aukast. En þeir sem leggja til að farið verði í gamla farið eru ekki að knýja á um að kaupmáttur í landinu aukist nema síður sé.

Það var fullyrt áðan að þær breytingar sem voru gerðar á vinnulöggjöf hefðu staðið í vegi fyrir því að kjarasamningar gætu gengið vel fram. Þetta er ekki rétt að mínu mati. Auðvitað þarf að komast lengri reynsla á hin nýju lög en þegar er orðin en ég tel að ekkert liggi fyrir um það nema síður sé að þær breytingar hafi skemmt fyrir í þeim viðræðum sem þegar hafa átt sér stað. Þeir samningar sem nýlega hafa náðst fyrir austan eru í samræmi við þau lagafyrirmæli og eru gerðir í samræmi við þær áætlanir og mun um þá samninga verða vélað nákvæmlega í samræmi við það. Það er því ekki hægt að finna að þar hafi þessi lög staðið í vegi nema síður sé.

Ég sagði frá því í Morgunblaðinu að það kynni að vera að hin nýju lög væru hættulegri í fyrstunni gagnvart ákvörðun um verkfall, ekki vegna þess að það fælist í eðli laganna heldur vegna þess að í fyrstunni kynnu menn ekki að átta sig á þeim breytingum sem orðið hefðu á því umboði sem menn væru að veita. En um leið og þessar leikreglur verða mönnum ljósar, það tekur tíma --- við skulum gá að því að gömlu vinnulögin voru ekki einu sinni öll komin í framkvæmd eftir áratugi --- en þegar fram í sækir er ljóst að þessi lagabreyting er til bóta. Þó að þekking á þeim sé að komast yfir til almennings í landinu eins og gerist með aðra löggjöf getur vel verið að þetta atriði gæti flækst fyrir mönnum. En það þýðir ekki að atriðið sé ekki til bóta í eðli sínu sem það örugglega er því að rétturinn er færður til fólksins og það viljum við öll býst ég við sem í þessum sal erum.

[16:00]

Auðvitað bind ég við það vonir sem og ríkisstjórnin öll að til verkfalla þurfi ekki að koma, að mönnum takist að stuðla að því að kjör í landinu batni. Það vita allir menn að það verða engir fjármunir til í verkföllum. Verkföll eyða fjármunum. Menn þurfa að vinna meira á eftir til þess að ná sér upp eftir verkföll. Það þekkjum við. Auðvitað getur einn hópur fengið meiri fjármuni á kostnað annarra með verkföllum en það verða engir fjármunir til í verkföllum. Ég býst ekki við að það sé nokkur maður í þessum sal sem haldi því fram að fjármunir verði til í verkfalli. (Gripið fram í.) Þess vegna held ég að sé mjög mikilvægt að menn haldi sínu striki og vinni að því sem nú er möguleiki, sem betur fer, þriðja, fjórða og fimmta árið í röð, að auka kjarabætur fólksins í landinu. Þar höfum við öll sömu skyldu og mikilvægi þess hlýtur að vera það sama fyrir okkur hvorum megin sem við sitjum við borðið, ríkisstjórnarmegin eða stjórnarandstöðumegin, eins og málin standa í augnablikinu.

Ég bind vonir við það að þeir samningar sem þegar hafa tekist geti ýtt undir það að skriður komist á viðræður. Við þekkjum það frá mörgum öðrum slíkum kjarasamningaviðræðum að það getur komið uppstytta í viðræður og hefur margoft gerst. Viðræður ganga bærilega síðan kemur uppstytta sem getur staðið í nokkurn tíma, jafnvel bakslag. Þetta er alþekkt. Hér inni eru reyndari menn en ég í kjarasamningum og þeir þekkja þetta vel. Það er ekki alltaf beina brautin sem menn ganga. En það er mjög mikilvægt að samningar taki ekki allt of langan tíma þannig að kaup fólksins megi hækka og kaupmátturinn sérstaklega megi hækka þannig að hagur manna fari batnandi.

Við sjáum fram á að það hanga mjög margir þættir á skynsamlegum kjarasamningum og þegar ég á við skynsamlega kjarasamninga þá á ég ekki við samninga sem eru skynsamlegir eingöngu fyrir ríkisstjórnina heldur samninga sem eru skynsamlegir fyrir fólkið í landinu, fyrir fyrirtækin og fyrir allan almenning þar með. Slíkir samningar tryggja okkur áfram það að vera með betri stöðu í samanburði við viðmiðunarlönd, áfram eins og verið hefur hér undanfarin þrjú til fjögur ár. Þeir tryggja okkur að kaupmáttur muni vaxa meir hér á landi en gerst hefur í samanburðarlöndum á undanförnum þremur, fjórum árum. Þeir tryggja okkur það að verðbólga verði svipuð og í nágrannalöndunum sem stuðlar að því að samkeppnisstaða Íslendinga verði bærileg. En undir henni er mjög mikið komið, því sé grundvöllurinn ekki réttilega lagður þá þýðir lítið fyrir okkur hin að tala um kaupmáttaraukningu. Grundvöllurinn verður að vera réttilega lagður. Og það er það sem menn eru auðvitað allir að vinna að. Skynsamlegir kjarasamningar tryggja líka að atvinnuleysi fer nú minnkandi og hefur farið jafnt og þétt minnkandi og mun minnka enn ef kjarasamningar eru skynsamlegir. Og það hafa forráðamenn í þessum sal, mjög margir, sagt að hafi verið brýnasta verkefni okkar að draga úr atvinnuleysi. Skynsamlegir kjarasamningar sýna og hafa sýnt að þeir eru til þess fallnir að draga úr atvinnuleysi og atvinnuleysi fer nú minnkandi og við eigum ekki að gera neitt til þess að leggja stein í götu þess. Og skilyrði til vaxtalækkunar fylgja auðvitað einnig í kjölfar skynsamlegra kjarasamninga.

Menn hafa dregið það í efa sem ég hef verið að segja að kaupmáttur og launaþátturinn fari vaxandi. Nú í dag var lagt fyrir ríkisstjórnina yfirlit yfir afkomu ríkissjóðs á árinu 1996. Þar kemur m.a. fram að í forsendum fjárlaga fyrir árið 1996 var gert ráð fyrir 6% hækkun atvinnutekna á mann á því ári. Nú kemur þar fram skekkja því atvinnutekjur virðast hækka mun meira eða um 8--9% á mann. Þetta er enn eitt atriði sem undirstrikar það sem allar tölu sýna, þó menn kjósi af einhverjum ástæðum að berja höfðinu við steininn, að kaupmátturinn fer vaxandi. Við skulum ekki gleyma því að farið var í aðgerðir til þess, sem enn þá standa og hafa ekkert breyst, að kaupmáttaraukningin geti orðið meiri hjá hinum lægstlaunuðu heldur en öðrum. Lækkun matarskatts var til þess fallin að auka kaupmátt hinna lægstlaunuðu. Lækkun aðstöðugjalda var til þess fallin að auka kaupmátt hinna lægstlaunuðu. Það gefur auga leið og það sjá allir sem það mál skoða af einhverri sanngirni. Þessir þættir eru því mikill ávinningur fyrir launamenn.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur að kaupmáttur hækki hér samfellt næstu fjögur eða fimm árin jafnmikið umfram það sem er að gerast í nágrannalöndunum eins og gerst hefur núna sl. fjögur ár. Þá verðum við komin í fremstu röð í kaupmætti í veröldinni. Við erum reyndar framarlega, en verðum við í allra fremstu röð ef þannig heldur áfram. Og að því eigum við öll að vinna. Að því markmiði vill ríkisstjórnin auðvitað vinna.