Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 16:19:31 (3011)

1997-02-03 16:19:31# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þessi umræða hófst með því að fullyrt var að hér væri mjög alvarleg staða í kjaramálum. Ekki ætla ég að draga úr alvarlegri stöðu út af fyrir sig, en ég vek á því athygli að mál hafa þróast í jákvæða átt síðustu daga og kjarasamningar hafa náðst í mjög mikilvægum málum og á ég þá við þann kjarasamning sem hefur náðst í loðnuverksmiðjum á Austurlandi, en fyrir nokkrum dögum var almennt talin mikil hætta á því að loðnuveiðarnar mundu hreinlega stöðvast af ýmsum ástæðum. Ég held að það hafi komið mjög glöggt fram í því máli að það er ekki vilji landsmanna að fara í verkföll og menn vilja gera allt sem hægt er til þess að komast hjá því.

Það hefur verið sagt að hér sé mjög alvarleg staða og mér finnst stjórnarandstaðan sjá allt svart. Þeir tala jafnframt um að það þurfi að hækka útgjöld á fjárlögum, það þurfi að lækka skatta, það þurfi að lækka þjónustugjöld, en að vísu var lítið talað núna um að það þyrfti að ná jöfnuði í ríkisfjármálum þannig að ég hef ekki oft heyrt áður jafnmiklar andstæður í málflutningi og hér hafa komið fram.

Því verður ekki á móti mælt að hagvöxtur hefur verið mikill. Verðbólga er lág, atvinnuleysi hefur minnkað, kaupmáttur hefur aukist og lífskjör hafa batnað.

Í þessari umræðu hefur allmikið verið talað um fátækt á Íslandi og ég held að það sé þá best að vitna til þeirrar úttektar sem Félagsvísindastofnun gerði í þessu máli og birt var í október. Þar kom mjög glögglega fram hve mikið samband er milli atvinnustigs og lífskjara. Og í annarri könnun sem var birt í janúar 1997 kemur fram að á árinu 1995 voru rúmlega 12% þjóðarinnar undir þeim mörkum er teljast til fátækramarka samkvæmt þeirri skilgreiningu sem þar er, en á árinu 1996 er hlutfallið komið í 9,9%.

Allir hv. alþingismenn geta verið sammála um að við þurfum að breyta þessu. En við þurfum að svara því hvernig það skuli gert. Ég held að ekkert annað ráð sé við því en að minnka atvinnuleysið og bæta lífskjörin í framtíðinni með því að til sé atvinna fyrir allar vinnufúsar hendur. Sagan segir okkur að þetta er sú aðferð sem við höfum besta til þess að ná þessu fram.

Það er t.d. mikið talað um það núna að verið sé að ráðast í fjárfestingar uppi í Hvalfirði sem einhver mengun fylgir. Það er rétt. Í fyrsta skipti sem stjórnarandstaðan bað um umræðu eftir þinghlé þá var það til að mótmæla þessum framkvæmdum og benda á hætturnar í þeim efnum. Það munu nokkur hundruð manns fá atvinnu við þær framkvæmdir og þá starfsemi sem þarna fer fram. Stjórnarandstæðingar eins og aðrir verða að velja og hafna í þessum efnum, þ.e. hverju á til að kosta til að bæta lífskjörin í landinu. Menn gera það ekki bara með því að sitja hjá og horfa á og efna til umræðu utan dagskrár á Alþingi nægilega oft til þess að reyna að hækka lífskjörin. Þannig gerist það ekki.

Það er staðreynd að atvinnuleysi á Íslandi er að meðaltali innan við 4% um þessar mundir. Á sama tíma er spáð um 11% atvinnuleysi hjá Evrópusambandsríkjunum og 8% hjá OECD-ríkjunum þannig að við höfum náð miklum árangri á þessu sviði. Það hefur ekki síst gerst vegna þess að hér er rekin ábyrg ríkisfjármálastefna og það er mikilvægt að hún verði rekin áfram.

Þótt full samstaða sé um að breyta hinum svokölluðu jaðarsköttum þá þarf að skapa svigrúm til þess og það er það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera án þess að efna til halla á fjárlögum. Þannig að ef við viljum skapa fleirum störf, þá verður að skapa þær aðstæður að vextir geti lækkað, að fjárfesting í atvinnulífinu taki við sér og hagvöxtur komist á skrið, þar með talið að hér eigi sér stað erlend fjárfesting. Það er eina ráðið til þess að störfum fjölgi og atvinnuleysi minnki.

Því miður eru ýmis þenslumerki í efnahagsmálunum og við verðum að játa það að þessi þensla getur ógnað þeim stöðugleika sem er í efnahagsmálum. Það er alveg ljóst að sparnaður í okkar hagkerfi er of lítill og það er af þeim ástæðum sem aðhald í ríkisrekstri er meira en margur vildi hvort sem það er á sviði heilbrigðismála, menntamála eða annarra málaflokka. En það verður ekki á allt kosið og það þýðir ekki að koma hér upp og segja eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, að það þurfi að hækka útgjöld til hinna ýmsu málaflokka án þess að ræða þá í leiðinni hvort það geti orðið til þess að stöðugleika sé ógnað.

Herra forseti. Ég tel að við séum að ná verulegum árangri í efnahagsmálum og öll skilyrði hafi skapast til þess að hér geti ríkt allgóð sátt á vinnumarkaði. Við getum reiknað með því að kaupmáttur fjölskyldna aukist að meðaltali um 15--20% fram til aldamóta sem er meira en hjá nokkurri annarri þjóð í nágrenni okkar. Og menn leyfa sér að gera lítið úr því, að það sé ekki til að tala um. En ef svo færi nú að við misstum þessi skilyrði niður og misstum stjórn á efnahagsmálunum þannig að stöðugleiki væri ekki lengur fyrir hendi, hafa menn þá trú á því að kaupmáttur geti aukist þetta mikið fram til aldamóta? Auðvitað gera allir aðilar á vinnumarkaði sér grein fyrir því að ábyrgð þeirra er mikil og menn vita að þetta mun ekki nást fram með einhverri kúvendingu, einhverri kollsteypu, heldur hægt og sígandi og við hljótum að leggja áherslu á að kjör þeirra sem minnst hafa verði bætt sem mest. En það er ekki eingöngu ríkisvaldið sem getur stuðlað að því. Það geta líka aðilar vinnumarkaðarins og þá er mikilvægt að missa kjaraþróunina ekki úr böndum þannig að þeir sem mest hafa hlaupið fram úr öðrum eins og oft hefur gerst í kjarasamningum og við höfum bitra reynslu af.

Herra forseti. Ég tel að staðan í kjaramálunum sé þess eðlis að við getum gert okkur góðar vonir um að þar fáist niðurstaða á næstu vikum. Við hljótum að vænta þess að menn vinni áfram á sömu braut og hófst nú um þessa helgi með því að mikilvæg mál voru leyst og ríkisvaldið hlýtur að stuðla að því að sú þróun haldi áfram. En það er ekki tímabært að mínu mati að ríkisstjórnin komi að þeim málum á þessu stigi þótt það kunni að gerast á síðari stigum.