Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 16:30:30 (3013)

1997-02-03 16:30:30# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig ekki hafa verið með neinn skæting í garð stjórnarandstöðu. Það verður að tala um hlutina eins og þeir eru. Stjórnarandstaðan á Alþingi, hver svo sem hún er á hverjum tíma, hefur ekki eingöngu leyfi til að gagnrýna. Ég hef aldrei upplifað það. Það er alveg nýtt fyrir mér ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heldur að þingsköpunum hafi verið breytt í þá átt á Alþingi. Það má vel vera að þeir hafi breytt þeim þannig í Alþb. á síðasta fundi en ég kannast ekki við það. (Gripið fram í: Er ráðherrann pirraður í dag?) Nei, ég er ekkert sérstaklega pirraður. En ég heyri að alþýðubandalagsmenn taka þetta til sín og það veit nú á gott.

Ég heyri það á hv. þm. að meðaltöl skipta engu máli. En auðvitað skipta þau grundvallarmáli því þau sýna hvaða svigrúm er fyrir hendi til að bæta kaup og kjör í landinu. Og það skiptir meginmáli að það sé gert með réttlátum hætti. Ég styð að þeir sem minnst hafa fái sem mest og ég hef alltaf gert það. Hins vegar geri ég mér grein fyrir veruleikanum, að það er ekki nóg að sú skoðun heyrist hér úr ræðustól á Alþingi heldur þarf hún líka að ganga í gegn þegar samið er um hlutina úti á vinnumarkaðnum.