Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 16:46:53 (3018)

1997-02-03 16:46:53# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:46]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við almennir þingmenn höfum ekki séð þá fréttatilkynningu sem væntanlega verður birt í dag frá ríkisstjórninni um niðurstöður fjárlaga síðasta árs og eflaust eru þar merkar upplýsingar á ferð. Meðal annars þessi hve tekjuskattur hefur skilað sér í ríkari mæli en ráð var fyrir gert sem gefur til kynna að fólk hefur aflað sér meiri tekna. Ég held að afar fróðlegt væri að fá frekari greiningu á því hvar þessi launahækkun hefur átt sér stað. Svo mikið er víst að af henni fara afar litlar fréttir meðal almenns launafólks þó að, eins og ég nefndi í ræðu minni, við vitum að ýmsir hópar, m.a. kennarar sömdu um launahækkun. Þeir hópar sem Kjaradómur og kjaranefnd fjalla um eru misstórir og vega kannski ekki þungt í þessu en afar fróðlegt væri að fá nánari greiningu á þessu og hlýtur að skipta miklu máli í þeim kjarasamningum sem fram undan eru.