Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:11:27 (3025)

1997-02-03 17:11:27# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), BirnS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:11]

Birna Sigurjónsdóttir:

Hæstv. forseti. Íslendingar búa nú við meira góðæri en undanfarin ár að því er sagt er. Það er því ekki að undra að launafólk krefjist hlutdeildar í góðærinu með kjarabótum í samningum sem verið hafa í undirbúningi undanfarnar vikur og mánuði. Launþegar krefjast þess nú að sjá árangur af þjóðarsáttarsamningum undanfarinna ára.

ASÍ hefur gert kröfu um sérstaka hækkun lágmarkslauna upp í 70 þús. á samningstímabilinu og sýnist það hógvær krafa sem ekki ætti að kollvarpa efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Takist ekki að hækka lægstu launin í þessum samningum sem fram undan eru tel ég fulla ástæðu til að lögbinda verulega hækkun lágmarkslauna þannig að tryggt verði að aldrei séu greidd laun undir nauðþurftarmörkum. Launamunur kynjanna er sérstakt áhyggjuefni og því miður sér þess lítinn stað í umræðum sem fram hafa farið milli atvinnurekenda og launþega að hugað hafi verið að því að jafna þennan launamun. Hækkun lágmarkslauna kemur auðvitað konum til góða þar sem þær eru stærsti hópurinn sem raðast í lægstu launaflokkana og njóta auk þess miklu síður en karlar aukagreiðslna og yfirvinnu. En því má heldur ekki gleyma að launamunur kynjanna eykst eftir því sem ofar dregur í launastiganum og konur njóta ekki menntunar sinnar í launum eins og karlar gera. Þessu misrétti er afar brýnt að útrýma sem fyrst. Það verður ekki við það unað að kynferðið eitt ákvarði einstaklingum laun og tekjur af starfi sínu.

Kvennalistinn hefur bent á þá leið að fram fari kynbundið starfsmat til að jafna launamun kynjanna. Í þessu efni þörfnumst við konur aðgerða og jafnvel hefur heyrst fleygt þeirri hugmynd að stofna ætti sérstakt stéttar- eða verkalýðsfélag kvenna. Svo mikið er víst að orðin ein duga skammt til úrbóta.

Laun menntamanna eru annað áhyggjuefni. Í auknum mæli eru Íslendingar í samkeppni á alþjóðlegum markaði um vinnuafl þeirra sem hafa leitað sér framhaldsmenntunar og sérfræðiþekkingar á sínu sviði. Þá kemur glögglega í ljós að við erum á engan hátt samkeppnisfær því laun hér eru margfalt lægri en þau sem þessu vel menntaða fólki bjóðast annars staðar, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Því er hætta á að þeir sem eru nú við nám erlendis snúi ekki til starfa hér heima við þessar aðstæður og að auki missum við úr landi menn og konur með mikilvæga sérfræðiþekkingu.

Breytingar á undirbúningi kjarasamninga virðast ekki hafa skilað sér í betri árangri í samningaviðræðum nú. Sem dæmi má taka að samningamenn ríkisins hafa í viðræðum við framhaldsskólakennara kynnt hugmyndir að stofnanasamningum og nýju launakerfi sem m.a. felur í sér að starfs- og lífaldurshækkanir leggjast að mestu af og röðun í launaflokka miðast ekki við menntun eða námsmatskerfi. Kennarafélögin hafa hafnað þessum hugmyndum meðan ekki hefur verið samið um mannsæmandi launakjör fyrir kennarastéttina því laun kennara eru til háborinnar skammar þrátt fyrir nokkrar úrbætur í síðustu kjarasamningum.

[17:15]

Þetta kemur m.a. fram í því að um leið og atvinnuástand á almennum vinnumarkaði batnar örlítið líkt og gerðist sl. haust, gengur strax verr að ráða kennara í lausar stöður. Og skyldi engan undra því að byrjunarlaun grunnskólakennara eru nokkrum þúsundum yfir þeirri upphæð sem nú er verið að tala um sem lágmarkslaun eða um 75 þús. kr. á mánuði. Þetta eru byrjunarlaun þeirra með þriggja ára háskólamenntun að baki og auðvitað tilheyrandi námslán. Liggi einhver alvara að baki ummælum um þörf fyrir betri skóla verður að tryggja kennurum laun sem samsvara menntun þeirra og þeirri ábyrgð sem fylgir kennslu og tryggja þannig að skólar missi ekki hæfa kennara til annarra starfa sem eru betur launuð.

Grunnskólakennarar eru nú í fyrsta sinn að semja við nýja vinnuveitendur, sveitarfélögin, og binda vonir við skilning þeirra á mikilvægi þess að kennarar séu sáttir við laun sín.

Því miður er staða framhaldsskólakennara og háskólakennara lítið betri en grunnskólakennara. Einnig þar eru launin miklu lægri en greidd eru fyrir sambærilega menntun á almennum vinnumarkaði og skólarnir því ekki samkeppnisfærir um hæfasta fólk til starfa. Kennarar, eins og reyndar fleiri starfsstéttir, byggja því afkomu sína á miklu vinnuframlagi, jafnvel óhóflegri yfirvinnu sem ekki endilega skilar betri árangri í skólastarfi. Hér er leiðréttinga þörf. Menntun í landinu á allt undir því að við kennslu á öllum skólastigum sé vel menntað, áhugasamt fólk sem er ánægt í starfi og þar með líka sátt við laun sín.