Undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 17:24:50 (3027)

1997-02-03 17:24:50# 121. lþ. 60.95 fundur 166#B undirbúningur kjarasamninga og áhrif nýrra vinnumarkaðslaga# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:24]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur verið tiltölulega róleg að mínu mati, enda hafa atburðir helgarinnar kannski orðið til þess að hv. þingmenn eru bjartsýnni á að samningar séu að nást. Alla vega er nú kominn skriður á málið og er það vel.

Almennt vil ég halda því fram að það sé gott að búa á Íslandi og það fari batnandi. Kaupmáttur hefur farið vaxandi og því er spáð að hann vaxi enn á næstu árum að meðaltali um 15--16% frá 1995 til ársins 2000. Atvinnuleysi fer minnkandi og spáð er um 13 þúsund nýjum störfum fram til aldamóta. Verðbólga er lítil, fjárfestingar hafa tekið við sér á nýjan leik og almennt má segja að þjóðfélagið sé að rétta nokkuð úr kútnum. Sá árangur virðist nást á þessu ári að ríkissjóður verði rekinn hallalaust og það muni takast að byrja að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þetta skiptir miklu máli fyrir komandi kynslóðir. Það er skylda okkar sem nú erum áhrifavaldar í þjóðfélaginu að hugsa ekki bara um okkur heldur einnig um þá sem á eftir koma.

Glöggt dæmi um að hagur þjóðarinnar fer batnandi er þróun brottfluttra og aðfluttra á síðustu missirum. Mig rámar í mikla ræðu sem haldin var hér í þessum sölum af hv. formanni þingflokks Alþb. Það var mikil ræða um gámaflutninga. Íslendingar voru að flytja á Jótlandsheiðar þar sem stjórnarfar hér á landi var slíkt að hans mati að ekki var um annað að ræða. Nú er staðan sú, þegar litið er til síðasta árs, að brottfluttir á fyrstu átta mánuðum ársins voru 134 færri en á sama tíma árið áður og aðfluttum fjölgaði um 428. Í júlí og ágúst það ár fluttust 100 fleiri til landsins en frá. Í sömu mánuðum árið áður var nettóbrottflutningur 400 manns. Þegar litið er á allt síðasta ár þá fluttust 3.800 manns til landsins en frá landinu fluttu 4.300. Brottfluttir voru álíka margir og árið 1995. Aðfluttir eru hins vegar um 900 fleiri en þá og hafa ekki verið fleiri á einu ári nema 1988 og 1991. Þetta nefni ég sérstaklega í framhaldi af ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur sem nefndi að hætta sé á að ungt fólk sem menntast erlendis muni setjast þar að. Auðvitað er sú hætta alltaf til staðar og erfitt að hafa stjórn á því, en það sem hægt er að gera er að skapa skilyrði til þess að fólk vilji búa á Íslandi.

Aðhalds hefur verið gætt í útgjöldum hins opinbera og þannig hefur þjóðarbúskapurinn verið treystur. Leitað er leiða til þess að skjóta styrkari stoðum undir velferðarkerfið. Mikil umræða fer nú fram um sjúkrahús landsbyggðarinnar og hvert hlutverk þeirra eigi að verða til framtíðar. Unnið er að því að móta tillögur í nefnd sem skipuð er fulltrúum beggja stjórnarflokka ásamt fulltrúum ráðuneytis og heimamanna.

Ákveðið var með fjárlögum að skera niður um 60 millj. á þessu ári, enda yrðu heimamenn hafðir með í ráðum. Við Íslendingar verjum yfir 8% af vergri þjóðarframleiðslu í heilbrigðis- og tryggingamál og erum fjórðu í röðinni af OECD-ríkjum þannig að ekki eru fjármunirnir skornir við nögl. Því er eðlilegt og nauðsynlegt að skipting fjármagns sé sífellt til endurskoðunar með það fyrir augum að nýta fjármagnið betur. Fyrir landsbyggðina er aðalatriðið að hafa styrka heilsugæslu, enda er svo um mestallt land. Það var pólitísk ákvörðun á sínum tíma að byggja heilsugæsluna fyrst og fremst upp á landsbyggðinni til að byrja með en síðar á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla ekki að halda því fram að sú ákvörðun hafi verið röng en þó er hægt að halda því fram að það hafi því miður veikt heilsugæsluna í heild sinni hversu veik hún stendur hér á höfuðborgarsvæðinu.

Við framsóknarmenn sögðum fyrir kosningar að við vildum á síðari hluta kjörtímabilsins verja 2--3 milljörðum kr. til lífskjarajöfnunar með því að draga úr skattálögum á meðaltekjufólk með hækkun skattleysismarka, vaxtabóta, barnabóta og barnabótaauka. Þessi orð eru enn í fullu gildi. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja verulegum fjármunum til lækkunar á jaðarsköttum á þessu ári, en það má ekki þar við sitja, fleira þarf að koma til og verður að því unnið.

Ég sagði í upphafi máls míns að það væri gott að búa á Íslandi. Það vitum við held ég flestöll sem sitjum í þessum sal. Það er hins vegar svo að það þekkist að fólk sé fátækt. Samkvæmt ræðu hv. málshefjanda hér eru það fyrst og fremst atvinnulausir og námsmenn sem eru fátækir og er það eflaust rétt. Ríkisstjórnin vinnur að því að fjölga störfum eins og áður hefur komið fram í máli mínu og unnið er að lagafrv. um breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem er námsmönnum í hag þannig að unnið er að úrbótum á mörgum sviðum. Einnig er alltaf erfitt að fullyrða hverjir eru fátækir og ekki fátækir. Nýlega kom fram í skoðanakönnun að helmingur bænda væri undir fátæktarmörkum. Ég þykist þekkja sæmilega til á landsbyggðinni og ég tel að þetta sé ekki rétt þó að ég viti að tekjur bænda eru ekki nógu háar. Ég lýsi sérstakri ánægju með það að mér heyrist að hv. málshefjandi sé kominn hér í röð með okkur framsóknarmönnum sem baráttumaður fyrir bættum hag bænda.